Leitin að hinni „heilbrigðu brúnku“ hættuleg

Á sólarströndu í Portúgal. Það borgar sig að passa sig …
Á sólarströndu í Portúgal. Það borgar sig að passa sig á sólinni. Reuters

Aukið framboð á pakkaferðum til sólarlanda og ljósabekkir eru sagðir ástæðan fyrir því að húðkrabbamein hefur aukist fimmfalt meðal Breta frá áttunda áratugnum.

Sérfræðingar segja að leitin að hinni „heilbrigðu brúnku“ hafi orðið til þess að sífellt fleiri greinast með sortuæxli.

Um 13 þúsund Bretar fá nú sjúkdóminn ár hvert miðað við um 1.800 árið 1975 samkvæmt Krabbameinsfélagi Bretlands.

Sortuæxli er nú fimmta algengasta krabbameinið sem greinist í Bretlandi og yfir 2.000 manns láta lífið vegna þess árlega.

Sólbruni eykur hættuna á húðkrabbameini, sérstaklega hjá fólki með föla húð eða hjá þeim sem eru með marga fæðingarbletti eða freknur.

Nick Ormiston-Smith, sem fer fyrir tölfræðideildinni hjá Krabbameinsfélagi Bretlands, segir að frá því á áttunda áratugnum hafi sortuæxlistilfellum fjölgað hraðar en hinum tíu algengustu krabbameinunum meðal Breta.  

„Sumarfrí á heitum stöðum eru nú á viðráðanlegra veðri og ljósabekkir eru aðgengilegri en á áttunda áratugnum,“ segir Ormiston-Smith í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

„En við vitum að of stór skammtur af útfjólublárri geislun frá sólinni eða ljósabekkjum er helsta orsök húðkrabbameins.“

Hann segir að því megi í mörgum tilvikum koma í veg fyrir sortuæxli. Það sé því mikilvægt að fólk temji sér holla sólbaðshætti.

Frétt Sky í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert