Tesla kynnir nýja ofurrafhlöðu

Elon Musk og Orkuveggurinn.
Elon Musk og Orkuveggurinn. AFP

Tesla, fyrirtæki sem er einna helst þekkt fyrir að framleiða bíla undir sama nafni, hefur sveipað hulunni af því sem Elon Musk, stofnandi fyrirtækisins, kallar Orkuvegginn eða Powerwall, nokkurskonar ofurrafhlöðu.

Tilgangur þessarar nýjungar er að jafna sveiflur í notkun á raforkuneti heimila. Rafhlaðan getur þannig geymt t.d. sólarorku eða hlaðið sig með rafmagni yfir nóttina, þegar rafmagn er að jafnaði ódýrara. Með þessu vill Tesla gera húsum sem nýta sólarorku í miklum mæli kleift að skera sig algjörlega laus frá hinu hefðbundna raforkuneti. Rafhlaðan er ekki stærri en svo að hún gæti komist fyrir innanhúss.

Auk áðurnefndra kosta gæti rafhlaðan einnig verið notuð sem vararafstöð, þannig að rafmagnsleysi myndi heyra sögunni til fyrir notendur hennar.

„Markmiðið er að breyta algjörlega innviðum raforkunets heimsins til að geta framleitt rafmagn algjörlega án þess að treysta á kolefnaeldsneyti,“ sagði Musk við blaðamenn þegar Orkuveggurinn var frumsýndur í Los Angeles. Til að sýna mátt hans og megin var einungis notað rafmagn úr Orkuveggnum á kynningaratburðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert