Frostþurrkað ávaxta- og grænmetisduft á leiðinni á markað

Hrafnhildur Árnadóttir frumkvöðull hlaut styrk hjá Uppsprettu til klára þróa …
Hrafnhildur Árnadóttir frumkvöðull hlaut styrk hjá Uppsprettu til klára þróa vöru sína og koma henni á markað. mbl.is/Óttar Geirsson

Hrafnhildur Árnadóttir og maðurinn hennar, Sigurður Steinar Ásgeirsson frum­kvöðlar sem eiga fyrirtækið Frostþurrkun ehf., fengu styrk frá Ný­sköp­un­ar­sjóði Haga Upp­sprett­unni í lok síðasta árs, fyr­ir þróun sína og gerð á frostþurrkuðu ávaxta- og grænmetisdufti. Duftinu er ætlað að auðvelda fólki inntöku næringarefna og vítamína úr ávöxtum og grænmeti og ekki síst að sporna við matarsóun.

Hrafnhildur er framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hún og maðurinn hennar Sigurður, stofnuðum fyrirtækið saman árið 2021 eftir að hafa gengið með hugmyndina í maganum í um það bil tvö ár. „Við stofnuðum fyrirtækið í kjölfar þess að hafa unnið mikið heima vegna Covid faraldursins. Eins og svo margir aðrir þurftum við að breyta töluvert um takt vegna Covid og löngunin til að geta verið meira heima með börnunum okkar og unnið í okkar heimabyggð, Þorlákshöfn, varð sífellt sterkari, en við höfðum fram að því þurft að eyða töluverðum tíma í akstur til og frá vinnu í Reykjavík,“ segir Hrafnhildur.

Frostþurrkað ávaxta- og grænmetisduft auðveldar inntöku næringarefna

Segðu okkur aðeins frá  verkefninu ykkar, vinnslunni á duftinu og hvað þið hafið verið að gera.

„Verkefnið snýst í stuttu máli um þróun á . Samkvæmt nýlegum rannsóknum á mataræði Íslendinga, uppfylla aðeins um 2% landsmanna viðmið Landlæknis um neyslu 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag, eða 500 grömm á dag. Á sama tíma er verulegu magni af innlendu og innfluttu grænmeti og ferskum ávöxtum hent, enda eru þetta viðkvæm hráefni sem hafa stuttan líftíma. Sum þessara hráefna eru flutt langa leið til Íslands og eiga stutta lífdaga eftir þegar þau koma til landsins. Hingað til hefur skort farveg til að grípa þessi hráefni á stórum skala og nýta þau en við sjáum fyrir okkur að frostþurrkunaraðferðin henti sérstaklega vel sem farvegur fyrir slíkt hráefni,“ segir Hrafnhildur. 

Frostþurrkunarðferðin er ein besta þurrkaðferð fyrir matvæli þar sem hún …
Frostþurrkunarðferðin er ein besta þurrkaðferð fyrir matvæli þar sem hún verndar upprunaleg lífvirk efni, vítamín, næringar-, bragð-, og litarefni betur en aðrar þurrkaðferðir. mbl.is/Óttar Geirsson

Ein besta þurrkaaðferðin fyrir matvæli

Frostþurrkun ehf. er fyrirtæki sem sérhæfir sig í frostþurrkun matvæla, en frostþurrkun er þurrkaðferð sem hefur lítið verið notuð á Íslandi og mjög lítið framboð hefur verið af íslenskum frostþurrkuðum matvælum. „Aðferðin er ein besta þurrkaðferð fyrir matvæli þar sem hún verndar upprunaleg lífvirk efni, vítamín, næringar-, bragð-, og litarefni betur en aðrar þurrkaðferðir en frostþurrkaðar afurðir innihalda allt að 97% af upprunalegum innihaldsefnum og geymsluþol afurðanna getur orðið lengra en 10 ár,“ segir Hrafnhildur. 

Varan Hrafnhildar og Sigurðar ber heitið Fimma og áhugavert er að sjá og heyra hvernig þau hafa náð að þróa verkefnið sitt á síðastliðnum árum. Hvaðan kemur hugmyndin að baki Fimmunnar, frostþurrkaða ávaxta- og grænmetisduftinu og hvernig þróaðist hún áfram?

„Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að vinna með hliðarafurðir og ýmiskonar vannýtt hráefni. Við höfum lengi velt því fyrir okkur hvernig við getum notað frostþurrkunaraðferðina til að draga úr matarsóun á stórum skala og hvernig við getum búið til verðmæti úr hráefnum sem annars er fargað. Okkur datt því í hug að leita til grænmetisbænda og innflutnings- og dreifingarfyrirtækja og leita eftir samstarfi um að minnka matarsóun meðal þeirra. Við byrjuðum á að gera tilraunir með allskonar grænmeti og ávexti og sáum fljótt að verkefnið myndi geta skilað fjölmörgum flottum afurðum með ýmiskonar tilgang. Fimma er hugsuð sem lausn við þeim vandamálum sem ég er búin að nefna, annars vegar matarsóun og hins vegar of lítilli neyslu almennings á grænmeti og ávöxtum. Fimma er blanda af ávaxta og grænmetisdufti í þeim hlutföllum sem Landlæknir ráðleggur. Duftinu má svo hræra eða þeyta saman við vatn, mjólk, jógúrt eða annan vökva og neyta þannig mikils magns næringarefna úr ávöxtum og grænmeti með afar einföldum hætti. Til dæmis er ein teskeið af spínatdufti búin til úr handfylli af fersku spínati og ein matskeið, 10 grömmum. af jarðarberja- og bananadufti búin til úr um það bil 100 grömmum af ferskum ávexti. Fimma auðveldar þannig fólki að neyta mun meira magns næringarefna úr grænmeti og ávöxtum með einfaldari hætti.  Það er þó mikilvægt að taka fram að vörunni er ekki ætlað að koma í stað neyslu ferskra ávaxta og grænmetis enda er neysla ferskra ávaxta og grænmetis alltaf besti kosturinn. Fimma er frekar hugsuð sem viðbót fyrir fólk sem á erfitt með að uppfylla dagsskammtinn eða á erfitt með að neyta ferskra ávaxta og grænmetis,“ segir Hrafnhildur.

Frostþurrkuðu ávaxta- og grænmetisdufti sem er ætlað að auðvelda fólki …
Frostþurrkuðu ávaxta- og grænmetisdufti sem er ætlað að auðvelda fólki inntöku næringarefna og vítamína úr ávöxtum og grænmeti og líka minnka matarsóun. mbl.is/Ottar Geirsson

Styrkurinn mikil hvatning fyrir verkefnið

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að hafa fengið styrkinn frá Uppsprettu?

„Rekstur fyrirtækja á Íslandi er mjög kostnaðarsamur og efnahagsumhverfið mjög erfitt þessa dagana t.a.m. vegna hás vaxtarstigs. Vöruþróun getur verið mjög kostnaðarsöm og tekið langan tíma en tími og peningar eru einmitt eitthvað sem sprotafyrirtæki hafa lítið af. Sem frumkvöðla- og sprotafyrirtæki þá reiðum við okkur því verulega á styrki við fjármögnun allra okkar verkefna og í raun værum við ekki hér án styrkja. Styrkurinn frá Uppsprettu hefur komið sér mjög vel fyrir okkur og verið mikil hvatning við framkvæmd verkefnisins. Það er einnig ómetanlegt fyrir okkur sem nýliða í matvælaframleiðslu að fá leiðsögn og handleiðslu frá starfsfólki Haga í gegnum ferilinn við að koma nýrri vöru í hillur verslana,“ segir Hrafnhildur og bætir við að það sé ómetanlegt að fá tækifæri til að koma vörunni á markað. 

Er ferlið komið langt og ef eitthvað er eftir hvað þá?

„Ferlið er komið vel á veg en þessa dagana erum við að gera prufublöndur með ýmiskonar grænmeti og ávexti. Blöndurnar þurfa að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem að bragðast vel, innihalda rétt hlutföll af grænmeti á móti ávöxtum og þær þurfa að blandast vel við vökva. Þessa dagana erum við að velja þau hráefni sem passa best saman út frá bragði, næringarefnainnihaldi og trefjamagni.“

Hrafnhildur er mjög ánægð með hve vel hefur tekist til …
Hrafnhildur er mjög ánægð með hve vel hefur tekist til að þróa vöruna og á von á því að varan komist á markað seinni hluta þessa árs. mbl.is/Ottar Geirsson

Von á því að komast á markað seinni hluta ársins 2024

Aðspurð segist Hrafnhildur eiga von á því að varan komi inn á markað seinni part ársins 2024. Hrafnhildur horfir björtu augum til framtíðar. „Ég sé fjölmörg tækifæri í frostþurrkun afurða á Íslandi og held að innan skamms verði frostþurrkunaraðferðin orðin að mikilvægum hlekk i virðiskeðju matvælaframleiðslu á Íslandi. Ég sé fyrir mér að frostþurrkun verði til dæmis mikið notuð til að draga úr sóun matvæla og til fullnýtingar hliðarafurða og að hún muni koma til með að skapa fullt af nýjum tækifærum til verðmætasköpunar á Íslandi.“

Áttu von að þið eigið eftir að koma með fleiri nýjungar á markaðinn?

„Já, við erum að gera allskonar tilraunir með ýmiskonar hráefni og erum í rauninni bara rétt að byrja þessa vegferð,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Blöndurnar þurfa að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem að bragðast …
Blöndurnar þurfa að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem að bragðast vel, innihalda rétt hlutföll af grænmeti á móti ávöxtum og þær þurfa að blandast vel við vökva. mbl.is/Óttar Geirsson
Það verður spennandi að sjá þessar vörur á markaðinum.
Það verður spennandi að sjá þessar vörur á markaðinum. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert