Chelsea lagði Newcastle í markaleik

Cole Palmer heldur áfram að leika vel fyrir Chelsea.
Cole Palmer heldur áfram að leika vel fyrir Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Chelsea hafði betur gegn Newcastle United, 3:2, þegar liðin áttust við í lokaleik 28. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Stamford Bridge í Lundúnum í kvöld.

Chelsea er áfram í 11. sæti deildarinnar, nú með 39 stig og er einu stigi á eftir Newcastle í 10. sæti. Chelsea á þá leik til góða.

Í kvöld kom Nicolas Jackson Chelsea í forystu eftir aðeins sex mínútna leik þegar hann náði að slæma hælnum í skot Coles Palmers og stýrði þannig boltanum niður í bláhornið.

Alexander Isak jafnaði metin fyrir Newcastle með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig vinstra megin skömmu fyrir leikhlé og staðan því 1:1 í leikhléi.

Eftir tæplega klukkutíma leik kom Palmer Chelsea yfir að nýju með frábæru skoti fyrir utan teig hægra megin sem fór niður í nærhornið.

Glæsileg mörk

Varamaðurinn Mykhailo Mudryk kom Chelsea í 3:1 á 76. mínútu, fimm mínútum eftir að hann hafði komið inn á.

Mudryk komst þá framhjá Sven Botman, lék á Martin Dúbravka í marki Newcastle og lagði boltann í autt netið.

Á 90. mínútu minnkaði varamaðurinn Jacob Murphy muninn fyrir Newcastle og var þar um enn eitt laglega markið í leiknum að ræða.

Murphy steig þá Marc Cucurella út hægra megin í teignum eftir sendingu Lewis Miley og þrumaði boltanum hnitmiðað upp í nærhornið.

Nær komust gestirnir ekki og eins marks sigur Chelsea niðurstaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert