Chelsea glutraði niður forskoti gegn botnliðinu

Oli McBurnie jafnaði metin fyrir Sheffield United á ögurstundu.
Oli McBurnie jafnaði metin fyrir Sheffield United á ögurstundu. AFP/Darren Staples

Chelsea mátti sætta sig við jafntefli gegn botnliði Sheffield United, 2:2, þegar liðin mættust í 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í Sheffield í dag.

Chelsea er í níunda sæti með 44 stig og Sheffield United er áfram á botninum með 16 stig, níu stigum frá öruggu sæti.

Chelsea komst tvívegis yfir í leiknum en heimamenn jöfnuðu metin í bæði skiptin.

Thiago Silva braut ísinn með skallamarki á 11. mínútu eftir hornspyrnu frá Conor Gallagher.

Jayden Bogle jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik með skoti úr þröngu færi sem Djordje Petrovic varði í netið.

Um miðjan síðari hálfleik kom Noni Madueke Chelsea yfir að nýju með þrumuskoti á mitt markið rétt innan vítateigs sem Ivo Grbic í marki Sheffield United færði sig frá; reiknaði eflaust með skoti í fjærhornið.

Á þriðju mínútu uppbótartíma jafnaði Oli McBurnie metin fyrir Sheffield þegar hann fékk skallasendingu inn fyrir frá Cameron Archer og kláraði vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert