Saddam vildi vera "besti vinur" Bandaríkjanna

Saddam Hussein, fyrrverandi forseti Íraks, stóð í þeirri trú, að hann hefði sigrað í Persaflóastríðinu 1991. Þegar hann síðan eyðilagði öll gereyðingarvopnin að loknu stríðinu, efaðist hann ekki um, að CIA, bandaríska leyniþjónustan, vissi allt um það. Í samræmi við þetta taldi hann, að ályktanir Sameinuðu þjóðanna, viðskiptaþvinganir og stríðshótanir í 12 ár, væru aðeins yfirskin og tilgangurinn fyrst og fremst sá að auðmýkja hann.

Saddam var nefnilega þeirrar skoðunar, að Bandaríkin og Írak ættu að vera nánir bandamenn. Hann gæti hjálpað við að halda aftur af kjarnorkudraumum Írana, aðstoðað við að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna og hann bauðst til þess við Bandaríkjamenn að verða þeirra "besti vinur á svæðinu". Hann var alveg viss um, að Bandaríkjamenn myndu aldrei ráðast inn í Írak.

Þessari heimssýn Saddams er vel lýst í skýrslu Charles A. Duelfers, yfirmanns vopnaleitarnefndar CIA, en hún var gerð opinber fyrir skömmu. Er hún byggð á mörgum heimildum og meðal annars á viðtölum við Saddam sjálfan. Sýnir hún vel þankagang hans allt fram að innrásinni í fyrravor.

Duelfer segir, að vilji Bandaríkjamenn reyna að skilja hvers vegna Íraksstjórn hundsaði ályktanir SÞ, verði þeir "að líta heiminn frá sjónarhóli Saddams". Þessu má raunar snúa við og segja, að hafi Saddam misskilið Vesturlönd, þá hafi bandarísk yfirvöld, allt frá 1991, misskilið Saddam.

Þau fundu sannanir fyrir ólöglegum vopnum, sem ekki voru til, en sáu ekki það, sem nú liggur í augum uppi. Sem dæmi má nefna, að fyrir innrásina hélt George W. Bush forseti því fram, að árangurslaus leit vopnaeftirlitsmanna SÞ að gereyðingarvopnum sannaði einfaldlega, að Saddam hefði falið þau, ekki, að þau væru ekki til.

"Ég velti því stundum fyrir mér hvaða hlut af orðinu "nei" við skildum ekki," sagði embættismaður í varnarmálaráðuneytinu, sem lengi fylgdist með Saddam og íröskum málefnum. Ljóst er, að Duelfer velti þessu mikið fyrir sér. Hann hefur reynt að gera grein fyrir þeim ólíka veruleika, sem blasti við stjórnvöldum í Bagdad og Washington, og stundum minnir skýrsla hans mest á þann gamla sjónvarpsþátt "Í ljósaskiptunum".

Duelfer hvetur til, að menn gleymi myndum, sem sýndu Saddam næstum eins og trúð. Sjálfur hafi hann litið á sig sem einn af mörgum og miklum leiðtogum Íraks.

"Saddam sá aðdáunina í augum fólksins þegar hann skaut af riffli yfir höfði þess en á Vesturlöndum sáum við bara undarlegan mann fara gáleysislega með vopn," segir Duelfer. "Ímyndið ykkur hvað hann hefur hugsað þegar hann sá Bush á skjánum kalla hann "brjálæðing"."

Miklar rannsóknir, viðtöl og 40 millj. síður af skjölum

Duelfer hefur kynnt sér Saddam í tíu ár. Fyrst sem aðstoðaryfirmaður vopnaeftirlitsnefndar SÞ og síðar sem yfirmaður bandarísku vopnaleitarnefndarinnar. 960 síðna löng skýrsla hans er byggð á 16 mánaða löngu rannsóknastarfi í Írak, á viðtölum við Saddam og flesta helstu ráðgjafa hans og vísindamenn og á athugun á íröskum skjölum, 40 milljónum síðna.

Einn og sami starfsmaður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, hefur yfirheyrt Saddam síðan hann var handtekinn í desember fyrir tæpu ári. Segir hann, að Saddam hafi alltaf verið skýr og rökréttur í hugsun.

Fyrrverandi leyniþjónustuforingi, sem lesið hefur yfirheyrsluskýrslurnar, segir þær hins vegar valda vonbrigðum að því leyti, að í þeim segi ekkert um það, sem fyrir Saddam vakti, og ekkert um pyntingarnar, launmorðin og fjöldamorðin.

"Saddam segir ekki hvað hann var að hugsa er hann framdi þessa glæpi. Þetta er eins og að hafa Hitler á bekknum og minnast ekki á útrýmingarbúðirnar," sagði leyniþjónustuforinginn og viðurkenndi, að CIA hefði aldrei áttað sig á, að blekkingum Saddams um gereyðingarvopnin hefði fyrst og fremst verið beint að Írönum, erkifjanda Íraka. Saddam hefði ekki óttast neitt meira en að Íranar kæmu sér upp kjarnorkuvopnum.

Starfsmenn CIA lásu hverja hótunina á fætur annarri út úr ræðum Saddams. Þeir voru vissir um, að gereyðingarvopn væru geymd í bílum og byggingum og gleyptu við frásögnum flóttamanna, sem sögðu bara það, sem CIA vildi heyra. Þeir vildu heldur ekki trúa því, að Saddam myndi sætta sig við viðskiptabann, sem kostaði Írak um 7.000 milljarða ísl. kr. á ári, ef hann hefði ekkert að fela.

Þessar blekkingar Saddams snerust að lokum gegn honum sjálfum og það, að Bandaríkjamenn skyldu ekki átta sig á þeim, hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir bæði ríkin.

Mistök Saddams "eru einhver þau mestu í sögunni. Jafnvel verri en okkar. Við erum vanir því, að menn segist ekkert hafa að fela en höfum ekki kynnst því áður, að einhver leggi sig í líma við að sannfæra aðra um, að svo sé. Að vísu sagðist hann ekki eiga gereyðingarvopn en allar hans gjörðir gáfu annað í skyn", sagði leyniþjónustumaðurinn fyrrverandi.

Treysti því, að Bandaríkin héldu aftur af Írönum

Saddam leit svo á, að meginverkefni Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum væri að tryggja, að íslamska byltingin í Íran breiddist ekki út til annarra ríkja á svæðinu með þeim afleiðingum, að róttækir sjíta-klerkar næðu kverkataki á olíulindunum. Hann var viss um, að þjóðarhagsmunir Bandaríkjamanna væru að koma í veg fyrir íranska kjarnorkuvopnasmíð en ekki að steypa honum. Á það reiddi hann sig raunar.

David Kay, fyrirrennari Duelfers sem yfirmaður bandarísku vopnaleitarinnar, segist sjálfur hafa spurt Tariq Aziz, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Íraks, hvers vegna Saddam hefði ekki haldið í gereyðingarvopnin fyrst hann var svo hræddur við kjarnorkuáætlanir Írana.

"Aziz sagði, að í hvert sinn sem þetta hefði borið á góma, hefði Saddam sagt: "Hafið ekki áhyggjur af Írönum. Ef okkar mat er rétt munu Bandaríkjamenn og Ísraelar sjá um þá." Með öðrum orðum," sagði Kay, "þá treysti Saddam á, að við myndum eiga við Írana".

Vildi bæta samskiptin við Bandaríkin

Viðhorf Saddams til Bandaríkjanna voru mótsagnakennd. Hann var hetjan, sem naut aðdáunar allra araba fyrir að standa uppi í hárinu á eina stórveldinu en jafnframt sagði hann ráðgjöfum sínum, að það fylgdi því ekki minni virðing að vera bandamaður Bandaríkjanna. Þess vegna fékk hann sendimenn SÞ, blaðamenn og aðra til að koma á framfæri óskum um bætt samskipti við Washington.

Öllum þreifingum Saddams var vísað á bug og raunar er ómögulegt að vita hvort honum var full alvara. Við yfirheyrslur yfir honum kvartaði hann þó yfir því, að honum hefði "aldrei verið gefið tækifæri" vegna þess, að Bandaríkjastjórn hefði ekki viljað hlusta á neitt, sem frá Írak kom.

Dr. Jerrold Post, sálfræðingur, sem greindi Saddam fyrir CIA, segir hann ekki vanheilan á geði. Hann hafi hins vegar þekkt lítið til utan Íraks og haft brenglaða heimssýn.

"Hann hélt, að hótanir vestrænna ríkja væru af sama tagi og stóryrðin, sem oft eru höfð uppi í arabaríkjunum. Hann var umkringdur undirlægjum, sem sögðu honum það, sem hann vildi heyra, en ekki það, sem hann þurfti að heyra," segir Post.

Duelfer segir líka frá því, að Ali Hasan Al Majid, "Efnavopna-Ali", sem stýrði fjöldamorðum á Kúrdum í bænum Halabja, hafi verið spurður hvernig Saddam hafi brugðist við ótíðindum. Svarið var, að hann vissi ekki til, að nokkur maður hefði fært Saddam vondar fréttir.

Reiddi sig á, að CIA væri með sinn mann innan Íraksstjórnar

Mesta kaldhæðnin er þó kannski sú, að Saddam áttaði sig ekki á fyrirætlunum Bandaríkjanna vegna þess, að hann trúði því, að CIA væri miklu betri njósnastofnun en síðar kom á daginn. Nánir ráðgjafar hans sögðu við yfirheyrslur, að hann hefði verið alveg viss um, að CIA vissi, að hann ætti engin gereyðingarvopn. Hann efaðist heldur ekki um, að CIA væri með sinn mann innan írösku stjórnarinnar.

Saddam skjátlaðist illilega að þessu leyti. Í júlí síðastliðnum kom það fram við yfirheyrslur í hermálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar, að CIA hefði ekki haft neinn mann á sínum snærum í Írak í að minnsta kosti fimm ár fyrir innrásina.

"Saddam trúði goðsögninni um CIA," sagði Robert Baer, fyrrverandi CIA-maður, sem starfaði í Norður-Írak. "Hann trúði því staðfastlega, að við vissum hvað færi fram innan ríkisstjórnar hans. Hann vildi ekki trúa, að við vissum ekki neitt."

Aðrir Írakar trúðu líka á yfirlýsingarnar frá CIA. Duelfer segir frá því, að Abdul Tawab el-Mullah Huwaysh, háttsettur embættismaður, hafi haft áhyggjur af því, að Saddam væri að fela ólögleg vopn eftir að Bush Bandaríkjaforseti sagði Írak eitt af "öxulveldum hins illa" í janúar 2002.

"Huwaysh gat ekki skilið, að Bandaríkjastjórn notaði svona stór og ögrandi orð nema hún byggi yfir áreiðanlegum upplýsingum," segir Duelfer.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert