Segir óeirðir í úthverfum Parísar stafa af aðlögunarvanda

Kveikt var í á annað þúsund bílum í úthverfum Parísar …
Kveikt var í á annað þúsund bílum í úthverfum Parísar í gærkvöldi og nótt. AP

Walter Veltroni, borgarstjóri Rómar, sagði í dag að óeirðirnar sem verið hafa í úthverfum Parísar undanfarna 11 daga, stafi af aðlögunarvanda og hvatti til þess að gripið yrði til aðgerða sem komi í veg fyrir að innflytjendur verði útundan í þjóðfélaginu. Veltroni segir þetta vandamála ekki fyrir hendi á Ítalíu en Romano Prodi, leiðtogi ítölsku stjórnarandstöðunnar, segir hins vegar tímaspursmál hvenær upp úr sjóði á Ítalíu.

„Róm og París eru í mismunandi aðstöðu. Í höfuðborg Frakklands er aðlögunarvandi, vandi sem stafar af því hvernig tekið er á móti fólki og hvernig brugðist er við," sagði Veltroni. Hann sagði að sveitarstjórnir á Ítalíu hafi unnið mikið starf til að tryggja samþættingu félagslegra hópa í úthverfum borga. Mælti Veltroni með því við Frakka, að tekin verði upp stefna sem feli það í sér að innflytjendur fái að varðveita þjóðareinkenni sín en á sama tíma verði þeim auðveldað að aðlagast samfélaginu.

Romano Prodi, sem er fyrrum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði hins vegar á ráðstefnu í Bologna um helgina, að úthverfi ítalskra borga séu þau verstu í Evrópu. „Við megum ekki telja okkur trú um að þau séu öðruvísi en úthverfi Parísar. Úthverfin okkar eru mannlegur harmleikur og ef við grípum ekki til tafarlausra aðgerða í félagsmálum og húsnæðismálum munum við sjá svipaða atburði og í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert