Nígerskir gíslatökumenn segjast geta haldið föngum sínum í áraraðir

Kona hreinsar melónufræ við ósa Nígerárinnar.
Kona hreinsar melónufræ við ósa Nígerárinnar. Reuters

Vopnaður hópur vígamanna frá Nígeríu sem hafa í haldi Breta og þrjá starfsmenn á vegum Royal Dutch Shell olíufyrirtækisins, sem þeir rændu af olíuborpalli við ósa árinnar Níger í síðustu viku, sögðu í dag að þeir gætu haldið föngum sínum í gíslingu svo árum skipti náist ekki samkomulag við stjórnvöld í Nígeríu um að láta tvo leiðtoga hópsins lausa úr fangelsi.

Samtök vígamannanna hafa oftsinnis ráðist olíuleiðslur í landinu og hafa eyðilagt 10% af olíubirgðum landsins. Þeir sögðu jafnframt í dag að þeir myndu ekki láta af skemmdarverkum sínum á olíuleiðslum landsins nema Olusegun Obasanjo, forseti landsins, samþykki að gefa leiðtogum samtakanna frelsi.

Vígahópurinn sendi yfirlýsingu sína með tölvuskeyti. Í því sagði að í löndum á borð við Kólumbíu væri gíslum oft haldið árum saman. „Við getum gert það líka,“ sagði í yfirlýsingunni.

Fram til þessa hefur Royal Dutch Shell verið eina olíuvinnslufyrirtækið sem hefur orðið fyrir barðinu á vígamönnunum. Fyrirtækið hefur dregið framleiðslu sína saman um 210.000 olíutunnur á dag og hefur sent 500 manns á vegum fyrirtækisins í Nígeríu úr landi.

Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert