Einum vinsælasta fréttavef Írans lokað

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans Reuters

Stjórnvöld í Íran hafa bannað vinsælan fréttavef íhaldsmanna þar sem hann brjóti gegn stjórnarskrá landsins og dreifi óhróðri, samkvæmt frétt ríkisfréttastofunnar IRNA.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu kemur fram að Baztab vefurinn hafi reynt að kynda undir ófriðarbál innanlands og dreift lygum. Slíkt brjóti gegn stjórnarskrá landsins og því hafi honum verið lokað.

Undanfarnar vikur hafa birst greinar á Baztab-vefnum þar sem stefna stjórnarinnar og forseta landsins, Mahmoud Ahmadinejad, í efnahagsmálum er gagnrýnd. Jafnframt hefur vefurinn gagnrýnt þá ákvörðun að halda ráðstefnu um helförina.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem vefsíðunni er lokað en í október 2005 var henni lokað en hún opnuð á ný. Er vefurinn einn vinsælasti fréttavefurinn í Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert