Sex uppreisnarhópar í Írak taka höndum saman gegn Bandaríkjunum

Skálmöldinni í Írak er hvergi nærri lokið.
Skálmöldinni í Írak er hvergi nærri lokið. AP

Sex íraskir uppreisnarhópar hafa tekið saman höndum til þess að mynda stjórnmálaráð til að frelsa Íraka undan bandarískri hersetu, en arabíska fréttastöðin Al-Jazeera skýrði frá þessu í dag.

Búið var að sverta andlit talsmanns „stjórnmálaráðs írösku andspyrnunnar“, líkt og segir í frétt Al-Jazeera, þegar hann birtist í fréttinni til að tilkynna um stofnun ráðsins.

Að ráðinu standa fjórar fylkingar sem standa að heilögu stríði og endurbótum, þ.e. íslamski herinn í Írak, Mujahedeen herinn, Ansar al-Sunna trúarráðið og Fateheen herinn.

Hinar tvær fylkingarnar sem einnig eru í ráðinu er íslamski armur íraskrar andspyrnu og íslamska andspyrnuhreyfingin Hamas í Írak.

Talsmaðurinn greindi frá sérstöku stjórnmálaáætlun sem ætlað er að frelsa Írak, en þar er því lýst yfir að það sé réttur fólks samkvæmt öllum lögum að berjast gegn hernámsþjóðum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert