Vopnaður hermaður hefur afskipti af ljósmyndara utan varnargirðingar

Vopnaður hermaður á jeppabifreið frá herlögreglunni á Keflavíkurflugvelli gerði athugasemd við störf ljósmyndara Víkurfrétta, þar sem hann var við fréttamyndatöku á Reykjanesbraut ofan við Grænás síðdegis í gær. Hermaðurinn hélt um skotvopn sitt á meðan hann yfirheyrði ljósmyndarann í vegarkantinum.

Hermaðurinn spurði hvers vegna ljósmyndarinn væri á þessum stað og hvað hann væri að mynda. Þá sagði hermaðurinn við ljósmyndara blaðsins að óheimilt væri að beina myndavélinni að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Ljósmyndari Víkurfrétta gerði grein fyrir störfum sínum á svæðinu. Hann var að mynda afskipti tveggja íslenskra lögreglumanna af unglingspiltum úr Reykjanesbæ.

Fram kemur á vefsetri Víkurfrétta að þetta sé í annað skiptið á stuttum tíma sem hermenn/herlögreglumenn af Keflavíkurflugvelli, vopnaðir skotvopnum, gera athugasemdir við störf ljósmyndara Víkurfrétta utan girðingar Keflavíkurflugvallar.

Frétt Víkurfrétta um afskipti herlögreglunnar af ljósmyndara blaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert