Davíð Oddsson: „Ekki í vafa um að farsæl niðurstaða fæst"

Fréttamenn ræða við Davíð Oddsson í Stjórnarráðshúsinu í dag.
Fréttamenn ræða við Davíð Oddsson í Stjórnarráðshúsinu í dag. mbl.is/Sverrir

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ræddu um fjölmiðlamálið á fundi í Stjórnarráðshúsinu í dag. Sögðu þeir eftir fundinn, að fjölmiðlafrumvarpið væri í meðferð hjá allsherjarnefnd Alþingis og þeir væru sáttir við þróun málsins þar. „Ég er ekki í vafa um það að það verður farsæl niðurstaða, hver sem hún verður, sagði Davíð við fréttamenn. „Ég hef engar áhyggjur af málinu."

Davíð sagði aðspurður, að engin ákvörðun hefði verið tekin um að draga fjölmiðlafrumvarpið til baka og tók Halldór undir það. Halldór sagði, að flokkarnir myndu leysa þetta mál eins og þeir væru vanir.

Báðir lögðu áherslu á að ríkisstjórnin stæði traustum fótum og þetta mál hefði ekki áhrif á samvinnu flokkanna. „Það þolir ýmislegt,“ sagði Halldór aðspurður um hvort stjórnarsamstarfið væri í hættu. „Ég held að ríkisstjórnin muni ekki falla. Þetta er ekki þannig mál að það væri réttlætanlegt að mínu mati að ríkisstjórnin færi frá út af því. Það eru önnur mál miklu mikilvægari.“

Stuttu síðar, þegar Davíð ræddi við fréttamenn, sagði hann gott á milli sín og formanns Framsóknarflokksins. Þeir ættu gott með að ræða saman og það sem hann hefði lesið um ríkisstjórnarsamstarfið í fjölmiðlum hlyti að eiga við einhverja aðra ríkisstjórn.

Halldór sagði eðlilegt að tími yrði tekinn til að fara yfir málið. Það væri erfitt viðfangs og viðkvæmt út frá stjórnskipan Íslands. „Lýðræðisleg umræða innan Framsóknarflokksins er ekki þrýstingur. Það er eðlilegt að menn tali um mál og ég tek tillit til þess. Ég vil ekki kalla það þrýsting eða byltingu þó menn ræði mál opinskátt,“ sagði Halldór spurður hvort hann fyndi ekki þrýsting frá framsóknarmönnum að lenda fjölmiðlamálinu á annan hátt en stefnt sé að. Ekkert hefði enn verið ákveðið og hann hefði ekki lagt fram neinar kröfur á fundinum með Davíð. „Ég er ekki vanur að gera kröfur. Ég er vanur að finna lausnir og við höfum unnið þannig báðir. Um það snúast stjórnmálin, að finna lausnir, og við hljótum að finna lausn á þessu máli.“

Gert er ráð fyrir að allsherjarnefnd komi saman á mánudag til að afgreiða frumvarpið og í kjölfarið komi Alþingi saman til að ræða um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert