Beckham fær ekki nýjan samning við Real Madrid

David Beckham fær ekki nýjan samning við spænska stórliðið Real …
David Beckham fær ekki nýjan samning við spænska stórliðið Real Madrid. Reuters

David Beckham yfirgefur spænska knattspyrnuliðið Real Madrid á þessu ári. Pedrag Mijatovic yfirmaður knattspyrnumála hjá Madrídarliðsinu staðfesti í samtali við sjónvarpsstöðina Sky Italia í dag að samningur Beckhams við félagið verði ekki endurnýjaður en núgildandi samningur fyrrum fyrirliða enska landsliðsins rennur út eftir tímabilið.

Beckham hefur ekki átt farsælan feril hjá Real Madrid frá því hann kom til félagsins frá Manchester United fyrir þremur árum. Hann hefur ekkert unnið með liðinu og á yfirstandandi tímabili hefur hlutskipti hans verið að verma varamannabekkinn meira og minna.

Félög í ensku úrvalsdeildinni hafa sóst eftir kröftum Beckhams, hann verið orðaður við lið í bandarísku atvinnumannadeildinni og þá hefur verið orðrómur að hann kunni að fylgja Sven Göran Eriksson fyrrum landsliðsþjálfara Englendinga til franska liðsins Marseille en góð tengsl voru á milli þeirra þegar Eriksson var við stjórnvölinn hjá Englendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert