Birgir Leifur: „Get leikið betur á næstu tveimur dögum“

Birgir Leifur Hafþórsson á TCL-meistaramótinu í Kína.
Birgir Leifur Hafþórsson á TCL-meistaramótinu í Kína. mbl.is/Elísabet Halldórsdótir.

„Ég er auðvitað mjög glaður að hafa náð í gegnum niðurskurðinn og fyrsta markmiðinu er náð. Hinsvegar hefði ég alveg viljað pútta aðeins betur á þessum hring. Þessir þrír fuglar sem ég fékk í dag voru stutt pútt og ég var ekki að setja niður þau pútt sem ég vildi fá ofaní,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG við mbl.is rétt í þessu

Hann er á meðal þeirra sem fá að leika á síðustu tveimur keppnisdögunum á TCL-meistaramótinu á Evrópumótaröðinni sem fram fer á Hainan eyju í Kína.

Birgir er samtals á 6 höggum undir pari eftir að hafa leikið á 70 höggum í dag og 68 höggum í gær. Það skor skilar honum í 37.-54. sæti en efsti kylfingur mótsins er Chapchai Nirat frá Taílandi sem er á 17 höggum undir pari, 61 og 66. Þeir sem léku á 4 höggum undir pari eða verr komust ekki áfram. Birgir verður í ráshóp með Svíanum Fredrik Anderson á þriðja keppnisdegi og fara af stað kl. 0:51 að íslenskum tíma aðfaranótt föstudags.

Nirat í sérflokki

„Hann er í sérflokki og ég held svei mér þá að hann sé bara að leika á púttæfingasvæðinu. Þetta er ótrúlegt skor eftir 36 holur og hann þarf að leika verulega illa til þess að geta misst þetta forskot niður.“

„Ég var búinn að fylgjast með skori keppenda sem fóru út á undan mér og ég vissi hvað ég þurfti að gera. Það eru engin stórvandræði sem ég hef þurft að leysa úr. Skollarnir tveir sem ég hef fengið á fyrstu tveimur dögunum voru pútt fyrir pari sem fóru ekki ofaní. Sveiflan er í fínu lagi og mér líður vel. Ég er sannfærður um að ekkert pútt á næstu tveimur dögum verður of stutt. Það er alltaf spenna sem fylgir því að tryggja sig áfram eftir tvo daga og ég hef trú á því að ég geti leikið mun betur en til þessa ef púttin verða í lagi,“ sagði Birgir Leifur.

birgirleifur.blog.is

Staðan á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert