Hvergi dýrara að fylla á tankinn

Í nýrri skýrslu alþjóðasamtakanna GZT um sjálfbæra þróun er borið saman verð á eldsneyti í 171 landi. Ísland nýtur þess vafasama heiðurs að tróna á toppnum hvað varðar verð á dísilolíu, en þegar kemur að bensínverðinu er það hið þriðja hæsta í heimi. Miðast þessar tölur við bensínverð eins og það var í nóvember í fyrra.

„Það er ákveðið áfall fyrir okkur sem neytendur að kjörnir fulltrúar skuli ekki standa betur vörð um verðlag en raun ber vitni," segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, um þessar niðurstöður. „Þarna koma annars vegar til háir skattar og hins vegar drjúg álagning. Og að auki markaður sem hefur einkennst af fákeppni," segir Runólfur og bendir á að ekki sé langt um liðið síðan olíufélögin urðu uppvís að víðfeðmu samráði um verð á eldsneyti. Hann segir smæð markaðarins einnig vinna gegn neytendum.

„Það er líka alveg ljóst að eldsneytisverð bitnar verr á sumum, t.d. þeim sem eiga um langan veg að fara eftir þjónustu í hinum dreifðari byggðum og einnig þeim sem eru kannski að hefja lífsbaráttuna og þurfa hugsanlega að kaupa eldri bíla sem eyða þá meiru," segir Runólfur. „Þetta er ekki eina vígstaðan sem er slæm fyrir okkur sem neytendur," bætir hann við.

Í skýrslunni má sjá að fyrir tæpu ári var bensín hérlendis 93 sinnum dýrara en í Túrkmenistan og tæplega þrisvar sinnum dýrara en það var í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert