Samninganefnd vegna ESB skipuð

Fánar Evrópusambandsins utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, upplýsti á Alþingi í dag að búið sé að skipa samninganefnd Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Formaður nefndarinnar er Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, varaformenn verða Björg Thorarensen, deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands og  Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri. Aðrir nefndarmenn eru Gréta Gunnarsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins, Högni S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, Kolfinna Jóhannesdóttir, MA í hagvísindum, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum og Þorsteinn Pálsson, lögfræðingur.  

Þá hafa formenn 10 samningahópa verið skipaðir. Björg mun stýra hópi um lagaleg málefni. Anna Jóhannsdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, stýrir hópi um EES, félagsmál, þjónusta, fjárfestingar og umhverfismál, Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, stýrir hópi um EES, vörur, orku og samkeppnismál,  Kolbeinn Árnason, lögfræðingur, fyrrverandi skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, stýrir hópi um sjávarútvegsmál, María Erla Marelsdóttir, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, stýrir hópi um utanríkis- og  öryggismál,  Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í í fjármálaráðuneytinu, stýrir hópi um fjárhagsmálefni, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, stýrir hópi um  myntbandalag, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, stýrir hópi um byggðamál og sveitastjórnarmál, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, stýrir hópi um dóms- og innanríkismál og Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, stýrir hópi um landbúnaðarmál.

Samningahóparnir munu starfa með samninganefndinni. Í þeim verða fulltrúar ráðuneyta og stofnana, ásamt fulltrúum hagsmunaaðila, félagasamtaka og háskólasamfélagsins. Þá munu innlendir og erlendir sérfræðingar starfa með samningahópunum. 

Össur sagði, að skipan nefndarinnar hefði verið kynnt utanríkismálanefnd og Íslendingum væri ekkert að vanbúnaði að halda af stað í þann leiðangur sem aðildarviðræður eru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert