Kaupsamningum fjölgar

mbl.is/Arnaldur

Alls var 222 kaupsamningum um fasteignir þinglýst  við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í júní. Eru það 5,7% fleiri samningar en þinglýst var í maí og 34% fleiri samningar en þinglýst var í júní á síðasta ári.

Fram kemur í markaðsfréttum Þjóðskrár, að heildarvelta viðskiptanna í júní nam 5,8 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 26,2 milljónir króna. Í júní í fyrra nam velta viðskiptanna 4,7 milljörðum króna og hefur því aukist um  24,5%. Meðalupphæð á hvern kaupsamning var 28,1 milljónir króna í fyrra.

Makaskiptasamningar í júní voru 36 eða 17,4% af öllum samningum. Í maí voru makaskiptasamningar 49 eða 25,5% af öllum samningum. Í júní 2009 voru makaskiptasamningar 63 eða 41,2% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greitt með annarri fasteign. Upplýsingar um makaskiptasamninga eiga eingöngu við um íbúðarhúsnæði.

Alls var 31 kaupsamningi þinglýst á Akureyri í júní. Heildarveltan var 636 milljónir króna og meðalupphæð á samning 20,5 milljónir króna.

Á sama tíma var 13 samningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Heildarveltan var 267 milljónir króna og meðalupphæð á samning 20,5 milljónir króna. 4 samningum var þinglýst á Akranesi, heildarveltan var 78 milljónir króna og meðalupphæð á samning 19,5 milljónir króna.

Þá var 12 samningum þinglýst í Reykjanesbæ. Heildarveltan var 325 milljónir króna og meðalupphæð á samning 27,1 milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert