Fleiri kindur í Noregi en á öðrum Norðurlöndum samanlagt

Sauðfé er fleira á Íslandi miðað við höfðatölu en annars …
Sauðfé er fleira á Íslandi miðað við höfðatölu en annars staðar á Norðurlöndum þótt flest sé féð í Noregi. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Norðmenn eru öðrum Norðurlandabúum fremri í því að þeir eiga mun fleiri kindur. Alls eru 2,5 milljónir kinda í Noregi, eða tvisvar sinnum fleira en á öllum hinum Norðurlöndunum samtals. Flestar eru kindurnar hins vegar, miðað við höfðatölu, á Íslandi, en þar eru kindur fleiri en íbúar.

Á Íslandi eru 478.000 kindur eða fleiri en samtals í Finnlandi og í Danmörku. Kindur eru einnig fleiri á Íslandi en í Svíþjóð.

Miðað við höfðatölu eru hestar einnig flestir á Íslandi, 74.000. Hestar eru reyndar fleiri í Svíþjóð, 95.000, en miðað við stærð landsins og höfðatölu er Ísland langmesta hestalandið á Norðurlöndunum. Þar er einn hestur á hverja fjóra íbúa. Fæstir eru hestarnir í Noregi þar sem 160 Norðmenn deila hverjum hesti.

Flest svín eru í Danmörku, 12,7 milljónir. Það er nær fjórum sinnum meira en á öllum hinum Norðurlöndunum samtals. Hænsni eru einnig flest í Danmörku, 20,6 milljónir, sem er nær helmingi meira en á hinum Norðurlöndunum samtals. Þetta kemur fram í Norrænu hagtölunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert