Riðu á landsmót frá Egilsstöðum: Aðeins ein skeifa fór undan alla leiðina

Alltaf kemur einhver hópur mótsgesta ríðandi á landsmót hestamanna. Þeir sem komu lengst að að þessu sinni eru þeir Bjarni Einarsson og Þorsteinn Gústafsson en þeir lögðu upp frá Egilsstöðum og voru ellefu daga á leiðinni.

Ekki voru þeir félagarnir vissir um hversu marga kílómetra þeir riðu en lengstu tvær dagleiðirnar voru 65 og 60 km langar en hinar yfirleitt um 45-50 km. Þeir Bjarni og Þorsteinn riðu alla leiðina en Björgvin Antonsson reið með þeim í Grímsstaði á Fjöllum og Hermann Þórisson reið með þeim í Skagafjörðinn, en hann hefur nýlega keypt jörðina Ármúla og ætlar að flytjast þangað. Honum þótti tilhlýðilegt að fara ríðandi þangað. Úr Skagafirðinum voru þeir Bjarni og Þorsteinn einir á ferð með 16 hross.

"Ferðin gekk alveg ljómandi vel," sögðu þeir félagarnir. "Við þurftum aldrei að fara í regngalla alla leiðina, en það kom skúr á okkur á Kili sem stóð yfir í 10 mínútur. Við höfum góða járningamenn þarna fyrir austan sem unnu sitt starf vel áður en lagt var af stað, því aðeins ein skeifa fór undan alla ferðina. Þar sem við höfðum svo marga hesta gátum við skipt oft og enginn hestur var þreyttur þegar við komum á leiðarenda. Þeir voru allir í mjög fínu standi."

Leið þeirra lá frá Egilsstöðum í Fossvelli í Jökulsárhlíð yfir Smjörvatnsheiði og í Fremri-Hlíð í Vopnafirði. Þaðan var farið í Grímsstaði á Fjöllum, síðan að Stöng í Mývantssveit. Þá í Sörlastaði í Fnjóskadal um Bíldsárskarð í Eyjafjörð og í Staðarbakka í Hörgárdal. Þaðan var farið í Silfrastaðarétt í Skagafirði. Daginn eftir var eiginlega hvíldardagur, þó var riðið að Mælifellsá, síðan að Galtará og þaðan í Hveravelli. Þá var haldið í Árbúðir við Hvítárnes og að lokum yfir Bláfellsás að Kjóastöðum í Biskupstungum þar sem hestarnir eru hafðir á meðan á mótinu stendur.

Þeir félagarnir eru ákveðnir í að ríða til baka, nokkurn veginn sömu leið. Lagt verður af stað á mánudaginn eftir mótið og ætlar Angelika Liebermeister frá Þýskalandi að slást með í för. Hún reið með þeim á landsmótið í Skagafirði fyrir tveimur árum og á fjórðungsmótið í Hornafirðinum í fyrra.

"Ég hef komið á mörg landsmót, en ég held að þetta mót sé það besta hingað til. Þá er sama hvort maður er að tala um umgjörð mótsins og aðbúnað eða hestana sjálfa," sagði Bjarni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert