Meiri launahækkanir en sést hafa hjá öðrum hópum

Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is
Þær launahækkanir sem Kjaradómur ákvað að forseti, ráðherrar, alþingismenn o.fl. fengju um næstu áramót, auk þeirra hækkana sem þeir hafa fengið á árinu, eru ekki í samræmi við mælingar Hagstofunnar eða kjararannsóknarnefndar á launahækkunum annarra hópa í þjóðfélaginu, segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.

Kjaradómur ákvað í gær að laun forseta Íslands hækkuðu um 6% frá áramótum, og laun ráðherra og annarra alþingismanna hækkuðu um rúm 8%. Laun þeirra hækkuðu síðast 1. júlí sl. um 2%, en áður höfðu þau hækkað um 3% í byrjun árs 2005.

Gylfi sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann hefði ekki náð að kynna sér forsendur Kjaradóms, en ljóst væri að hækkunin sem þingmenn og forseti hafa fengið á árinu væri hærri en sést hefði hjá öðrum hópum.

Bendir Gylfi á að þegar hækkun á launum þingmanna frá janúar 2005 til janúar 2006 sé reiknuð saman nemi hún 13,65%. Þar sé innifalin sú 2,5% hækkun sem almennir launamenn fái hinn 1. janúar. Þegar sú tala sé dregin frá standi eftir 11,12% hækkun. Almennir launamenn fengu 3% hækkun hinn 1. janúar 2005, og að viðbættu launaskriði um 2-3% sé hækkunin á bilinu 5-6%.

Hækkun hjá félagsmönnum ASÍ 5,6%

Hjá félagsmönnum ASÍ er því hækkunin á árinu samtals 5,6%, segir Gylfi. Hækkanir þingmanna séu því um tvöfalt hærri en hækkanir ASÍ-félaga á sama tímabili.

"Ég þekki engar upplýsingar um launaþróun á almennum markaði hjá neinum hópi sem nálgast þessar hækkanir. Ég veit ekki hvaða viðmiðun Kjaradómur sækir sér, en hann sækir það í það minnsta ekki í gögn Hagstofunnar eða gögn kjararannsóknarnefndar," segir Gylfi.

Garðar Garðarsson, formaður Kjaradóms, segir að það sem valdi hækkun umfram þau 2,5% sem almennir samningar geri ráð fyrir sé að þeir hópar sem miðað sé við hafi verið að fá hækkanir sem þeir hópar sem Kjaradómur úrskurði laun fyrir hafi ekki fengið.

"Þetta eru fleiri en einn hópur eftir því hver á í hlut, þetta á sér allt saman samsvörun í launaflokkum kjaranefndar," segir Garðar. "Eina launahækkunin eru þessi 2,5%, að öðru leyti er þetta bara aðlögun að launaflokkum. Þetta er ekki neitt sem við erum að ákveða, þetta er eitthvað sem aðrir hafa ákveðið og við verðum að taka tillit til, og leiðrétta laun kjaradómsmanna með tilliti til þess."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert