Simao Sabrosa á leið til Chelsea?

Simao Sabrosa, vonsvikinn yfir að hafa ekki skorað fyrir Benfica …
Simao Sabrosa, vonsvikinn yfir að hafa ekki skorað fyrir Benfica gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu. Reuters

Samkvæmt fréttum í portúgölskum fjölmiðlum er José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, kominn vel á veg með að kaupa Simao Sabrosa, fyrirliða Benfica, til ensku meistaranna fyrir næsta keppnistímabil. Simao hefur lengi verið undir smásjánni hjá Liverpool og litlu munaði að hann færi þangað síðasta sumar en nú virðist Chelsea vera búið að ná forskoti í baráttunni um þennan snjalla leikmann.

Simao er 26 ára og kom til Benfica frá Barcelona fyrir fimm árum. Hann hefur leikið stórt hlutverk í góðu gengi portúgalska liðsins í Meistaradeild Evrópu í vetur. Mourinho er sagður sérstaklega hrifinn af Simao og vilji ólmur fá hann í sínar raðir.

Mourinho hefur gefið til kynna að hann ætli að ná í þrjá nýja leikmenn fyrir næsta tímabil en flest virðist benda til þess að hann fái Michael Ballack frá Bayern München. „Við munum gera þrjár breytingar á okkar hópi. Þrír leikmenn eru ekki ánægðir með hve lítið þeir spila, eða þá ég er ekki ánægður með þá, og ég mun skipta á þeim og þremur öðrum. Það er eðlileg þróun. Við erum með góðan hóp á góðum aldri og engir eru í þann veginn að ljúka ferlinum. Makelele er elstur, 33 ára, og hann virðist vera yngstur. Við þurfum ekki að breyta miklu og það eðlilega er að fá einn varnarmann, einn miðjumann og einn sóknarmann," sagði Mourinho við enska dagblaðið The Times.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert