Átta marka sigur í Belgíu

Ragnar Óskarsson skorar gegn Belgum í fyrri leik þjóðanna.
Ragnar Óskarsson skorar gegn Belgum í fyrri leik þjóðanna. mbl.is/Golli

Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur, 33:25, á Belgíu í 3. riðli undankeppni Evrópumótsins í handknattleik í Kortjik í Belgíu í kvöld. Ísland heldur þar með efsta sæti riðilsins ásamt Noregi með 9 stig að loknum fimm leikjum. Staðan í hálfleik í viðureigninni í kvöld var, 15:14, íslenska liðinu í vil.

Íslenska landsliðið lék alls ekki vel í þessum leik. Nokkuð bar á einbeitingarleysi og þá var vörn og markvarsla slök allan leikinn. Eftir nokkurt basl í fyrri hálfleik þá kom nokkuð þokkalegur kafli rétt fyrir miðjan síðari hálfleik þar sem íslenska liðið náði því forskoti sem það hélt til leiksloka. Á þessum góða kafla lék Alexander Petersson afar vel, vann boltann nokkrum sinnum í vörninni og skoraði góð mörk í framhaldinu.

Belgíska liðið lék mun betur en það gerði í Laugardalshöll í október sl. í fyrri viðureign þjóðanna.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 10 mörk, þar af fjögur úr vítakasti. Alexander gerði 9 mörk, Vignir Svavarsson 4, Rúnar Kárason, Róbert Gunnarsson og Ragnar Óskarsson 3 hver, Ingimundur Ingimundarson eitt.

Björgvin Páll Gústafsson varði sjö skot og Hreiðar Levy Guðmundsson þrjú.

Næsti leikur Íslands í undankeppni EM verður gegn Noregi í Laugadalshöll á sunnudaginn kl. 16.

 Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Leikmenn íslenska landsliðsins gegn Belgum.

Markmenn: Björgvin Páll Gústavsson, Hreiðar Levý Guðmundsson.  Aðrir leikmenn: Alexander Petersson, Andri Stefan Guðrúnarson, Aron Pálmarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Ingimundur Ingimundarson, Ragnar Óskarsson, Róbert Gunnarsson, Rúnar Kárason, Sigurbergur Sveinsson, Sverre Jakobsson, Vignir Svavarsson, Þórir Ólafsson.

Elvar Friðgeirsson, Heiðmar Felixson og Snorri Steinn Guðjónsson taka ekki þátt í leiknum.

Ítarlega verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Belgía 25:33 Ísland opna loka
60. mín. Vignir Svavarsson (Ísland) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert