Jón Arnór: Langaði að kynnast öðru lífi

Jón Arnór hefur komið víða við og meðal annars verið …
Jón Arnór hefur komið víða við og meðal annars verið á mála hjá Dallas Mavericks. mbl.is

„Þetta var aðallega út af líðan minni og gert fyrir sjálfan mig, og tengist körfuboltanum ekki beint. Ég hef ótrúlega gaman af körfubolta en þetta flökkulíf er mjög einmanalegt og ég er orðinn 25 ára gamall en get samt ekki kallað neinn stað heimilið mitt,“ sagði körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Stefánsson sem kominn er aftur heim í KR eftir langa dvöl víðs vegar um heim.

„Aldrei vanist því að vera fjarri mínum nánustu

„Ég hef aldrei vanist því að vera fjarri mínum nánustu og þegar ég er úti er ég alltaf að hugsa um að komast heim. Þegar ég er heima er ég svo bara rétt farinn að tengjast fjölskyldunni aftur þegar ég þarf að kveðja. Ég er búinn að vera á það miklu flakki að ég hef aldrei náð að eignast góða og trausta vini þar sem ég kem, en ég á mikið af góðum vinum hérna heima þannig að það er alveg nóg.

Þetta væri allt öðruvísi ef ég væri með fjölskyldu með mér og svo er þetta ekkert eins og í fótboltanum þar sem menn eru oft að koma heim og spila með landsliðinu og svona. Þegar ég fer út er ég kannski úti í heilt ár,“ sagði Jón Arnór, sem skrifaði undir samning út leiktíðina líkt og annar landsliðs- og atvinnumaður, Jakob Örn Sigurðarson.

Jón Arnór hefur komið víða við og verið á mála hjá liðum á borð við Dynamo St. Pétursborg, Carpisa Napoli, Dallas Mavericks og nú síðast Lottomatica Roma á Ítalíu.

Ef ég fer aftur verður það á mínum forsendum

„Mig langaði að kynnast öðru lífi og þó að þetta sé búið að vera gefandi og mikil reynsla langar mig að vita hvort það sé eitthvað annað spennandi í þessu lífi. Nú ætla ég bara að fara að læra hérna heima og spila körfubolta með KR, og vera nálægt mínum nánustu.

Ef ég fer aftur til Evrópu verður það á mínum forsendum. Mig langar ekkert endilega í eitthvað stórlið heldur frekar í eitthvað miðlungslið sem ég get verið hjá í lengri tíma og átt þar heima,“ sagði Jón Arnór sem var aldrei í vafa um hvaða lið hann myndi velja á Íslandi, og hann hafði meira að segja samband að fyrra bragði við gamla liðið sitt KR.

Hafði sjálfur samband við KR

„Það kom ekki til greina að fara neitt annað og ég afsaka það að hafa ekki haft samband við nein önnur lið. Fólk veit að ég er KR-ingur í körfubolta og ég bara lét þá vita að ég hefði í hyggju að koma heim og þá var gengið frá því.

Það er alltaf pressa á KR að vinna titla og við erum með skemmtilegt og sterkt lið, en við verðum að hafa mikið fyrir því og berjast alveg eins og ljón. Mörg af þessum liðum hafa verið að sanka að sér leikmönnum en það er ekki allt, það þarf að vera góður andi í liðinu og ég held að við höfum hann í KR því við höfum spilað lengi saman,“ sagði Jón Arnór, sem heldur til Írlands á morgun ásamt íslenska landsliðinu til að spila í fjögurra liða æfingamóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka