Fyrir sjö árum breyttist lífið

Helga Guðrún Friðriksdóttir.
Helga Guðrún Friðriksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Helga Guðrún Friðriksdóttir myndi aldrei láta sjá sig með snjallúr og skilgreinir sig sem anti-sportista. Það var því töluvert kraftaverk þegar hún fann sig í ræktinni fyrir um sjö árum en í dag mætir hún nokkrum sinnum í viku í Kramhúsið. 

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Ég byrjaði að stunda Kramhúsið fyrir um það bil sjö árum sem hefur algjörlega breytt lífi mínu. Ég var orðin mjög slæm af vöðvabólgum og verkjuð í líkamanum. Ég byrjaði bara hægt, fann tímana sem hentuðu því standi sem ég var í þá en er núna búin að vinna mig upp. Núna mæti ég mest í flex body sem eru ansi krefjandi tímar sem leggja áherslu á styrk og þol ásamt liðleika,“ segir Helga Guðrún en um styrktar- og brennslutíma er að ræða. Tímarnir eru sérhannaðir fyrir fólk sem vill auka liðleika við góða tónlist, nota eigin líkamsþyngd og létt lóð sér til heilsueflingar.

Er eitthvað sérstakt sem þú gerir á hverjum degi til þess að hlúa betur að þér?

„Það er ekkert eitt daglegt sem ég geri annað en að reyna að nærast vel, sofa nóg og drekka nóg vatn.“

Ert þú svona græjumanneskja í ræktinni? Ertu með snjallúr og fylgist með púlsinum?

„Alls ekki, ég á engar græjur. Ég vinn við skartgripahönnun og gæti ekki hugsað mér að bera snjallúr, þau eru algjör hönnunarslys,“ segir Helga Guðrún sem rekur skartgripafyrirtækið Orrifinn ásamt eiginmanni sínum.

Helga Guðrún myndi aldrei láta sjá sig með snjallúr.
Helga Guðrún myndi aldrei láta sjá sig með snjallúr. Unsplash/Lala Azizli

Hefur þú alltaf hugsað vel um heilsuna eða er þetta nýtilkomið?

„Ég hef í gegnum tíðina líklega verið skilgreind sem anti-sportisti. Eina hreyfingin sem ég stundaði þegar ég var ung var leikfimi í skólanum sem mér leiddist gríðarlega. Það er kannski einmitt út af því að leikfimiskennsla var svo einhæf að maður taldi sig ekki vera með neinn áhuga á hreyfingu. Þegar ég eltist prófaði ég karate sem ég elskaði og synti líka reglulega sem mér finnst frábær hreyfing og aðallega hugleiðsla. Ég prófaði að kaupa mér kort í líkamsræktarstöð en fann fljótt að ég þoldi illa við þar. Tónlistin var algerlega að gera út af við mig og útlitsdýrkunin sem var allsráðandi þar stuðaði mig. Þegar ég uppgötvaði Kramhúsið var það algjör frelsun. Kennararnir þar velja tónlistina svo vel og stemningin er svo ljúf og heilandi,“ segir Helga Guðrún.

Borðar fisk helst á hverjum degi

Hvernig hugar þú að mataræði þínu?

„Ég er með erfiða meltingu og finn því mjög fljótt fyrir því sem ég borða. Fiskur er uppáhaldsmaturinn minn og fer best í mig og svo finnst mér nauðsynlegt að hafa ferskt grænmeti með öllum mat. Ég borða fisk nánast daglega, tek lýsi, steinefni og B-vítamín.“

Fiskur er mjög stór hluti af mataræði Helgu Guðrúnar.
Fiskur er mjög stór hluti af mataræði Helgu Guðrúnar. Unsplash/Pablo Merchan

Er eitthvað sem þú borðar ekki eða fer illa í þig?

„Ég er ekki alveg nógu góð í því að neita mér alfarið um eitthvað en hveiti fer illa í mig og því borða ég sjaldan brauðmeti. Ég hætti líka að drekka gosdrykki þegar ég var krakki og hef ekki tekið upp á því aftur.“

Hreyfirðu þig á hverjum degi?

„Nei, ég stunda ekki daglega hreyfingu en ég byrja alla morgna á að teygja í smá stund til að vekja líkamann. Ég mæti svo í Kramhúsið 3-4 sinnum í viku og tek vel á því, það er besta tilfinning í heimi og maður gengur alltaf brosandi þaðan út.“

Hvað um andlega heilsu. Hvernig ræktar þú hana?

„Mér finnst þessi líkamlega útrás sem ég fæ í Kramhúsinu gera mér svo andlega gott. Einnig finnst mér gefandi að fara ein í sund og liggja í heitu vatni eða gufubaði. Fjallgöngur í íslenskri náttúru og göngutúrar meðfram sjónum eru líka ómetanlegir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál