„Fyrsta hálfa árið fór í að lifa daginn af“

Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, oft kennd við Gyðju Collection, upplifði það …
Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, oft kennd við Gyðju Collection, upplifði það að missa heilsuna en náði sér aftur. mbl.is/Eyþór

Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, oft kennd við Gyðju Collection, upplifði það að missa heilsuna og í kjölfarið fyrirtækið sem hún var búin að byggja upp. Hún fann lækninguna sjálf eftir að hafa gengið á milli lækna. Í dag er hún heilsuhraust, er búin að eignast barn og stofna nýtt fyrirtæki, The House of Beauty.

Sigrún segir margt breytast þegar heilsan hrynur. Í hennar tilviki var orsökin mygla í húsi sem hún og maðurinn hennar létu byggja fyrir sig. Þau fluttu inn árið 2008 og smám saman byrjaði Sigrún sem er kraftmikil að upplagi að missa orkuna. „Vorið 2017 var ég orðin rosalega veik. Ég var það veik að ég átti erfitt með að ganga, það þurfti nánast að hjálpa mér á salernið. Ég var með taltruflanir, sjóntruflanir, dofa í útlimum og mjög mikla óútskýrða verki í líkamanum þannig að ég var fárveik. Enginn vissi hvað var að,“ segir Sigrún sem var orðin óvinnufær en barðist fyrir fyrirtækinu eins lengi og hún gat, eftir á að hyggja of lengi.

Hún gekk á milli lækna en mætti takmörkuðum skilningi. „Það var búið að greina mig með vefjagigt og ég var að fá sjálfsofnæmisgreiningu þegar það kom í ljós hvað var að drepa mig. Það var húsið sem við létum byggja fyrir okkur og við vorum búin að búa í í tæp tíu ár. Það var komin bunga á einn vegginn. Á endanum opnuðum við vegginn og þá kom í ljós að þar var allt svart af myglu. Efla sagði við okkur „út núna og ekki taka neitt með ykkur“,“ segir Sigrún. Í ljós kom að byggingaraðilarnir settu ekki rakasperrur í gluggana á húsinu að auki sem fleiri mistök voru gerð í byggingarferlinu sem leiddi til þess að húsið míglak.

Byrjuðu lífið upp á nýtt

„Við þurftum að flytja út með tvær hendur tómar. Þegar maður fer í gegnum svona er líkaminn í svo miklu viðvörunarmóti. Þú verður veikur af eiginlega öllu. Við fórum í Hagkaup um kvöldið sem við fluttum út með engum fyrirvara og keyptum okkur náttföt af því við máttum ekki taka neitt með okkur, og þar á meðal fötin okkar með. Ég svaf í bílnum í nokkra daga af því ég var of veik til að sofa á flestum heimilum, ég varð veik af nánst öllu og öllum þarna fyrst um sinn því myglugróin er svo víða, flestir finna ekkert fyrir henni en ef þú hefur veikst svona heiftarlega af myglu þá finnurðu fyrir minnstu ummerkjum og gró og getur orðið rúmliggjandi af minnsta tilefni. Einu sinni gisti ég hjá frænku minni og ég endaði á því að skríða út klukkan fimm um morguninn og út í bíl því ég var orðin svo veik.“

Fyrstu vikurnar voru Sigrún og maðurinn hennar á vergangi en þau gátu byrjað að byggja sig upp, upp á nýtt þegar fengu leigða íbúð með húsgögnum sem Sigrún varð ekki veik í. Þau þurftu hins vegar algjörlega að byrja upp á nýtt, fóru úr því að vera í nýju húsi í leiguíbúð. „Fyrsta hálfa árið fór í að lifa daginn af. Ég svaf á vindsæng af því ég var veik af rúminu, þetta hljómar galið en svona er þetta, algjörlega hrikalegt að lenda í og í raun getur enginn skilið það nema að lenda í sjálfur. Við tók fjögurra ára ferli til að ná heilsu, það tók tvö ár að verða nokkuð góð og þrjú til fjögur ár að verða alveg góð. Í dag fagna ég því að vera heilsuhraust.“

Sigrún er í stjórn Umhverfisveikra á Íslandi sem nefnist Samtök SUM og berst fyrir réttindum þeirra sem glíma við umhverfisveiki þar á meðal veikindi vegna myglu. Hún segir umræðuna á allt öðrum stað en fyrir sex árum en segir læknavísindin því miður ennþá langt á eftir í þessum efnum og enn sé of lítill skilningur hjá heilbrigðiskerfinu fyrir þessum veikindum. Spurð úti hvað hún myndi vilja sjá gerast í þessu segir hún að draumurinn væri að sjá einhvers konar neyðaraðstoð hjá heilbrigðiskerfinu og neyðarhúsnæði fyrir fólk sem þarf að flýja heimili sín vegna myglu.

Hafði engu að tapa

Það sem nýttist Sigrúnu best voru aðferðir manns sem heitir Anthony Williams og kallar sig Medical Medium. Eftir að hún heyrðu setningu úr einni af bókum Williams þar sem hann útskýrði af hverju sumir verða veikir af myglu og aðrir ekki þá náði hún sér í bókina Thyroid Healing, las hana spjaldanna á milli og ákvað í kjölfarið að prófa aðferðir Williams enda hafði hún engu að tapa á þeim tímapunkti. Hún var búin að prufa nánast allt og var ennþá veik.

Sigrún segir að í ástandi eins og hún var í sé lifrin undir miklu álagi. „Ég byrjaði að drekka sellerísafa á morgnana á fastandi maga. Ég byrjaði í litlum skömmtum en markmiðið var að fara upp í 500 millilítra. Fyrst um sinn fær maður afeitrunareinkenni og þá geta veikindin versnað þegar eitrið losnar úr frumunum og lifrinni. Það er bara eðlilegt. Svo um það bil 30 mínútum eftir sellerísafann drekk ég „heavy metal“ þeyting sem er samansettur úr bönunum, villtum bláberjum, kreistum appelsínum og kóríander. Þetta er mjög hreinsandi og hjálpar til við að hreinsa lifrina. Til þess að líkaminn geti farið að vinna úr þessum veikindum og byggja sig upp þá verður maður að hreinsa lifrina, það er nr. 1, 2 og 3 því lifrin er filter líkamans.“

Að mati Williams er sumt fólk með undirliggjandi vírus sem vaknar úr dvala við umhverfisáreiti eins og myglu. „Maður þarf að svelta þennan vírus og þess vegna borðaði ég sem dæmi ekki egg,“ segir Sigrún. Hún sneiddi einnig hjá fitu og borðaði góðan sykur á borð við ávexti til þess að hjálpa lifrinni að hreinsa sig. Að lokum tók hún líka út glúten til að ná sér alveg.

„Þetta gerði ég í um tvö ár og þá náði ég heilsu. Ég var að þessu alveg þangað til ég varð ólétt. Ég fékk mér sellerí og þeytinginn en ég leyfði mér t.d. á brauð á meðgöngunni. Líkaminn minn var sem betur fer farin að þola það á þeim tímapunkti. Í dag hef ég þetta til hliðsjónar þó ég leyfi mér allt.“

Sigrún Lilja þurfti að byrja á algjörum núllpunkti.
Sigrún Lilja þurfti að byrja á algjörum núllpunkti. mbl.is/Eyþór

Sigraði sjálfa sig

Þrátt fyrir að Sigrún hafi alltaf haldið í bjartsýnina og verið staðráðin í að leita leiða reyndu veikindin á andlegu hliðina.

„Það er rosalega erfitt þegar maður er vanur að vera orkumikill og eiga auðvelt með hluti að geta allt í einu ekki farið fram úr rúminu. Ég fór kannski í vinnuna í klukkutíma og var þá alveg búin í sólahring. Það tekur rosalega á andlega. Fyrir utan að þegar þú ert að glíma við mygluveikindi þá ræðst það á taugakerfið sem er andlega hliðin líka. Andlega var þetta virkilega erfitt alveg eins og líkamlega.

Ég upplifði mikla pressu og togstreitu. Ég var að koma úr því að vera með Gyðju og mér var búið að ganga vel í því. Fólk var spennt að fylgjast með en þetta snerist einhvern veginn allt um þessa velgengni. Svo allt í einu upplifði ég bara að ég hef ekki einu sinni heilsuna mína, ég var búin að missa fyrirtækið mitt, ég var búin missa húsið mitt sem var í raun nánast ónýtt, ég mat sjálfa mig ekki lengur að verðleikum. Það var kannski það stærsta sem ég þurfti að vinna í andlega. Að byggja upp sjálfstraustið mitt aftur og átta mig á að virðið mitt væri ekki fólgið í því hversu mikið af hrósum ég fæ. Sjálfsmatið mitt var svo tengt Gyðju og eftir á að hyggja barðist ég allt of lengi fárveik fyrir því fyrirtæki.“

Sigrún notaði meðal annars aðferðir Tony Robbins til þess að byggja sig upp en hann er stærsti sjálfshjálpar markþjálfi í heimi. Sigrún sigraði sjálfa sig á sínu fyrsta námskeiði hjá honum í New York þegar hún gekk yfir 400 gráðu heit kol. Áskorunin átti sér stað eftir 18 tíma námskeiðsdag þar sem var hlegið, grátið og öskrað.

„Í fyrsta lagi vissi ég ekki að dagarnir væru svona langir. Klukkan sex var mér var sagt að dagurinn væri rétt að byrja. Ég hugsaði allan tímann að ég væri sko ekki að fara að ganga yfir kolin, maður mátti sleppa því. En svo gekk ég yfir fjárans kolin og sigraði sjálfa mig í leiðinni. Ég man hvað þetta fyrsta námskeið breytti miklu fyrir mig,“ segir Sigrún sem fór svo á mörg námskeið í kjölfarið hjá Tony Robbins. Hún hlustar líka reglulega á Tony Robbins og hún var að auki með Tony Robbins markþjálfara um 2 ár.

Leggur áherslu á að byggja upp taugakerfið

„Ég lét hreyfingu mæta afgangi en það sem ég lét alltaf hafa forgang er rútínan mín sem ég reyni að gera nokkrum sinnum í viku. Þetta er rútína sem ég geri annað hvort í sundi eða spai, ég þarf bara að hafa gufubað og kaldan pott. Ég byrja á því að fara í gufu í um 20 mínútur og er með hugleiðslu í eyrunum. Þegar ég er búin að því fer ég í kalda pottinn í eina til tvær mínútur. Þegar það er búið sest ég einhvers staðar og geri þrjá hringi af Wim Hof-öndun, þetta byggir upp taugakerfið. Þessi rútína er mér mikilvægari heldur en t.d. að fara á æfingu þrátt fyrir að ég reyni líka að koma því inn, en ef ég þarf að velja þá er það rútínan sem er í fyrsta sæti.“

Þegar Sigrún stundar líkamsrækt nýtir hún X3-líkamsræktarkerfið sem þróað er af þeim sömu og fundu upp Osteostrong. „Þetta er æfingakerfi með teygjum og fleiru þar sem þú æfir 15 til 20 mínútur á dag og þú nærð að æfa heima fyrir,“ segir Sigrún. Hún segir kerfið til þess gert að hámarka árangur á stuttum tíma. Þetta hentar henni vel með lítið barn og fyrirtæki.

Eitt af því sem Sigrún gerði til að ná heilsu var að fara í sogæðanudd til að vinna á bólgu, bjúg og verkjum. Svo vildi til að konan sem átti stofuna sem hún var vön að sækja ákvað að selja. Sigrún ákvað að kaupa stofuna og hóf rekstur undir nafninu The House of Beauty. Sigrún segir fyrirtækið ganga mjög vel. Hún er framkvæmdastjóri og á stofunni eru í dag 11 meðferðaraðilar.

„Ég vildi einbeita mér eingöngu að heilsu og líkamanum og því leggjum við upp úr því að vera setur heilsu og líkamsmeðferða. Við fáum til dæmis til okkar töluvert af gigtarsjúklingum sem koma einu sinni í viku í vinsælustu meðferðina okkar, sogæðameðferðina Lipomassage Silklight og með meðferðinni ná þeir að halda niður verkjum og stundum geta þeir hætt á lyfjum og þá er markmiðinu náð. Á hinn bóginn erum við að hjálpa til við útlitslega þáttinn. Þá erum við að framkvæma meðferðir með tækni og tækjum þar sem við vinnum á staðbundinni fitu, vinnum á slappri húð, slitum, byggjum upp vöðva á stöðum þar sem þeir eru ekki að láta sjá sig þrátt fyrir hefðbundið mataræði og líkamsrækt. Við erum líka að fá til okkar fólk sem getur ekki stundað líkamsrækt út af heilsufarslegum ástæðum. Þetta er tækni sem virkar vel á staðbundnum vandamálum en við erum ekki að gefa okkur út fyrir það að hjálpa fólki við mjög stór vandamál eins og að léttast mikið þó við getum veitt góðan stuðning. En ef þú ert með staðbundna fitu sem fer ekki með hreyfingu og mataræði þá komum við inn og getum hjálpa þér að vinna á þessari fitu með nútímatækni og tækjum.“

Rútínan breytist í móðurhlutverkinu

Sigrún er með markmið þegar kemur að heilsunni árið 2024.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu ári og ég finn alveg að eldmóðurinn er mikill. Ég er með mikið af markmiðum og verkefnum sem ég hlakka gríðarlega til að láta verða að veruleika. Mér líður pínu eins og ég sé búin að vera undir feldi í eitt og hálft ár og sé að mæta aftur til leiks. En það verður að segjast að þegar maður eignast barn þá breytist rútínan hjá manni og maður hefur ekki sama tíma og áður. Ég ætla að koma rútínunni minni í fastari skorður. Markmiðið er að stunda X3 að lágmarki sex sinnum í viku og svo væri ég til í að fara í hot jóga tvisvar í viku á móti til að hjálpa til við að teygja og halda í liðleikan. Svo er þetta þessi gullni millivegur varðandi mataræðið, vera hóflegur. Öfgar virka oftast ekki en föstur hjálpa mér.“

Þegar talið berst að móðurhlutverkinu segir Sigrún það dásamlegt en um leið krefjandi.

„Fyrstu þrír mánuðirnir voru rosalega erfiðir. Þetta var erfiðara en ég hefði nokkurn tímann trúað, það voru gerð mistök í fæðingunni sjálfri þannig ég missti 60 til 70 prósent af blóði líkamans og ég fékk blóðgjöf sólarhring of seint þannig að ég þurfi því að fá mun meiri blóðgjöf í lengri tíma og vera töluvert lengur á spítalanum heldur en ella, ég var í raun mjög heppin að ekki fór verr í kjölfarið út af röð mistaka þarna uppi á deild í kringum fæðinguna. Þetta varð mér allt mjög erfitt og ekki síst áfallið á eftir, þegar maður áttaði sig á hvað þetta var í raun rosalegt. Litla daman mín var svo að auki kveisubarn þannig hún grét stanslaust fyrstu þrjá mánuðina. Upp frá þessu fór að koma hjá mér fæðingarþunglyndi. Það lýsti sér í rosalegum kvíða, varðandi allt í kringum barnið, og ég á t.d. enn í dag mjög erfitt með að heyra hana gráta, auk þess sem ég bara sá ekki gleði í lífinu, það var allt erfitt og álag, ég var hætt að brosa og hlakka til neins. Ég er frekar glaðlynd manneskja að eðlisfari en mér fannst ekki ástæða til að gleðjast eða hugsa fram á veginn. En ég fékk sem betur fer góða aðstoð strax frá því að hún fæddist, ég fór meðal annars í EMDR-meðferð og í sálfræðimeðferð sem hjálpaði mér mikið. En eftir að hafa eignast barn sjálf þá jókst virðing mín fyrir öllum mömmum þarna úti um mörg þúsund prósent, þvílíkar hetjur, bara það að fæða barn í heiminn, það eitt og sér er rosalegt. Þetta er erfiðasta hlutverk sem ég hef fengið en jafnframt það mest gefandi. Það sem gerði svo gæfumuninn var þegar við fjölskyldan, maðurinn minn og litla daman fórum í fæðingarorlofsferð til Spánar í einn og hálfan mánuð. Það breytti öllu fyrir mig. Þá vorum við öll saman allan daginn í sólinni að njóta og þar finnst mér ég hafa náð að snúa þessu við. Ég kom alveg tvíefld til baka og líður miklu betur. Ég mæli með að allir sem hafa tök á í fæðingarorlofi að fara erlendis í sól og njóta þess að vera saman, bara fjölskyldan án truflunar. Það er alveg magnað hvað það gefur manni mikið.“ segir Sigrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál