Félag fólks með sykursýki sendir frá sér yfirlýsingu

Sweet Life/Unsplash

Ívar Orri Ómars­son sagði frá því í viðtali sem birtist á Smartlandi í morgun hvernig hann neyti nú hrás matar sér til heilsubótar. Ívar er með sykursýki 1 og hefur í rétt rúmar tvær vikur verið í áskorun sem hefur vakið at­hygli net­verja um all­an heim, en hún fel­ur í sér að borða ein­ung­is óeldaðan mat næstu fjór­ar vik­urn­ar. 

Stjórn Diabetes Ísland – félags fólks með sykursýki hefur sent frá sér yfirlýsingu. Stjórnina skipa Fríða Bragadóttir framkvæmdastjóri, Sigríður Jóhannsdóttir formaður, Stefán Pálsson varaformaður, Valgeir Jónasson meðstjórnandi, Helgi Kemp Georgsson fulltrúi Dropans, Þorsteinn Hálfdánarson fulltrúi ungliða og Kristinn Ingi Reynisson varamaður.

Yfirlýsingin er svohljóðandi: 

„Fullyrðingar sem koma fram í viðtali við Ívar Orra Ómarsson á mbl.is í dag 14. febrúar 2024, þar sem hann segir orsakasamband milli neyslu sinnar á sælgæti og óhollustu og þess að hann greindist með diabetes af tegund 1 styðjast ekki við viðurkenndar niðurstöður vísindarannsókna, heldur eru eingöngu hans persónulegu skoðanir.

Diabetes (sykursýki) er alvarlegur sjúkdómur sem kemur upp þegar brisið getur ekki lengur framleitt insúlín (tegund 1), eða þegar líkaminn getur ekki lengur nýtt sér nægilega vel það insúlín sem brisið framleiðir (tegund 2). Þetta hefur áhrif á hvernig líkaminn breytir næringunni í orku.

Diabetes er í öllum tilfellum krónískur og ólæknandi sjúkdómur alveg frá byrjun.

Diabetes tegund 1 getur komið fram á hvaða aldri sem er, en algengast er að það gerist á barns- eða unglingsaldri. Líkaminn framleiðir þá mjög lítið eða ekkert insúlín vegna þess að ónæmiskerfið hefur drepið þær frumur í brisinu sem framleiða insúlínið (betafrumur). Mikið hefur verið rannsakað til að reyna að finna orsökina fyrir þessari bilun í ónæmiskerfinu, sem ræðst á eigin frumur líkamans. Flestar rannsóknir benda til að um sé að ræða viðbrögð ónæmiskerfisins við veirusýkingu, sem getur hafa orðið löngu áður en sykursýkin kemur fram, jafnvel mörgum árum fyrr. Diabetes tegund 1 er sem sagt sjálfsofnæmissjúkdómur sem stýrist að öllum líkindum af samspili erfða og fyrri veikinda einstaklingsins.

Það er ekkert sem bendir til þess að mataræði viðkomandi hafi áhrif á það að sjúkdómurinn komi fram, og að okkar mati beinlínis skaðlegt að halda slíku fram þvert gegn áliti vísindamanna sem rannsaka sjúkdóminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál