45 ára í góðri vinnu - en með sjálfsvígshuganir

Íslenskur karl leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur sálfræðingi.
Íslenskur karl leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur sálfræðingi. Samsett mynd

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá sál­fræðistof­unni Sál­ar­líf svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem glímir við sjálfsvígshugsnir . 

Hæ hæ

Ég er 45 ára giftur, þriggja barna faðir, í góðri vinnu og á yndislega fjölskyldu. Ég hef verið að glíma við sjálfsvígshugsanir af og til í nokkurn tíma. Ég hef ekki rætt það við neinn, því ég skammast mín og vil ekki að aðrir hafi áhyggjur af minni líðan. Þá skammast ég mín fyrir það eitt að líða svona því ég hef allt af öllu, mig skortir ekkert. En stundum líður mér eins og ég sé að lifa fyrir einhvern annan en sjálfan mig. Ég hef aldrei leitað til sálfræðings, finnst það mjög stórt skref. Getur þú ráðlagt mér?

Kveðja, BV

Hvernig er best að bregðast við andlegri líðan að þessari …
Hvernig er best að bregðast við andlegri líðan að þessari stærðargráðu? Daniel Martines/Unsplash

Sæll. 

Takk fyrir þetta.

Leitt að heyra að þú hafir verið að glíma við sjálfsvígshugsanir, en mikilvægt er að þú hafir í huga að þú ert ekki sá eini sem hefur fengið slíkar hugsanir. Sjálfsvígshugsanir eru ekki merki um veikleika heldur mikla vanlíðan.

Ég myndi hvetja þig til þess að ræða líðan þína við einhvern sem þú treystir og eindregið hvetja þig til þess að leita þér viðeigandi hjálpar hjá sálfræðingi. Að mínu mati ættu allir að fara til sálfræðings á lífsleið sinni, að leita sér hjálpar er styrkleikamerki. Ef líðan þín er mjög slæm núna og þú jafnvel hræðist það að gera þér eitthvað skaltu leitar þér tafarlaust aðstoðar. Þú getur leitað til bráðamóttöku geðsviðs við Hringbraut, heilsugæslunnar, hjálparsíma Rauða krossins (1717) og til Píeta samtakanna (522-2218 – sími opinn allan sólarhringinn) Heim - Pieta samtökin. Píeta samtökin bjóða upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir 18 ára og eldri.

Mig langar að benda þér á að mikilvægt er að þú sért meðvitaður um það að sjálfsvígshugsanir eru einkenni þunglyndis og að sjálfsvíg er ekki lausnin, heldur það að ná tökum á þunglyndinu.

Neikvæðar hugsanir einkenna þunglyndi og eru þær ekki staðreyndir, því er mikilvægt að reyna eins og þú getur að taka ekki mark á neikvæðu hugsunum þínum (trúa ekki öllu sem þú hugsar) og láta ekki þunglyndið stjórna þér. Enn og aftur hvet ég þig til þess að ræða líðan þína við einhvern sem þú treystir, ef þú hefur áhyggjur af því að trufla fólk þá mun það „trufla“ fólkið enn meira ef þú tekur þitt eigið líf. Einnig að þú reynir að gera eitthvað sem veitir þér ánægju (hafa eitthvað fyrir stafni) eins og til dæmis ganga, lesa bók, fara í sund, faðma einhvern, drekka kaffi, gera góðverk svo fátt eitt sé nefnt. Ef þú átt erfitt með að koma þér í að gera hluti, þá getur þú notað fimm mínútna regluna, s.s gera eitthvað í fimm mínútur þó þig langi alls ekki til þess. Einnig myndi ég ráðleggja þér að forðast alfarið áfengi og önnur vímuefni og reyna að koma hreyfingu inn í daginn þinn, til dæmis stuttur göngutúr væri nóg til að byrja með þ.e.a.s. ef þú ert ekki að stunda neina hreyfingu nú þegar.

Reyndu að hugsa vel um þig, borða hollt, vakna á svipuðum tíma á morgnanna og sinna eigin hreinlæti. Þessir þættir skipta máli og stuðla að bættri líðan. Myndi einnig ráðleggja þér að finna út hvað gefur lífi þínu gildi, hvað ertu þakklátur fyrir, hvað er gott við lífið þitt, rifja upp góðar minningar, sumum finnst gott að skrifa niður hvernig þeim líður og hvetja sjálfan þig áfram („Ég kemst í gegnum þetta“, „Þetta mun verða betra“). Þá langar mig að benda þér á bókina Náðu tökum á þunglyndi eftir Sólveigu Dröfn Davíðsdóttur. 

Gangi þér sem allra best!

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál