Jón Ragnar: Orðinn reiprennandi í frönsku

„Það var ansi erfitt að halda þetta út allan seinni hálfleik. Þeir lágu ansi mikið á okkur og með sterka skallamenn í teignum. Þannig við þurftum að hafa okkur alla við til þess að halda markinu hreinu. En það kom sér vel að vera með stór lungu í lokin og spretta fram völlinn og fá þessa líka yndislegu sendingu frá Atla G. En ég þurfti að hafa mig allan við að klára þetta,“ sagði FH-ingurinn Jón Ragnar Jónsson sem skoraði fjórða mark FH í 4:2-sigri á Breiðabliki í 12. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Þegar ég sá að ég átti séns á að skora mitt fyrsta mark í meistaraflokki þá er maður ekkert að fara að taka einhvern aula á þetta. Þá hleypur maður bara fram völlinn og ekkert múður,“ sagði Jón Ragnar eftir leikinn.

„Þessi leikur verður klárlega minnistæður. Ég er reyndar heitur á æfingum og skora fullt af mörkum, en hef verið alveg víðs fjarri í meistaraflokki bæði með Þrótti og FH. Þannig það var sætt að skora loksins mark. Þannig ég á eftir að taka markið upp og horfa á það aftur og aftur,“ sagði Jón Ragnar um markið sitt í kvöld.

„Þessi sigur í kvöld var sérstaklega verðmætur þar sem Stjarnan vann leikinn sinn í gær. Við viljum vera á toppnum og við þurftum að vinna í kvöld til þess að vera þar.“

Jón Ragnar hefur haft ýmsa menn sér við hlið í vörn FH að undanförnu vegna leikbanna og meiðsla, en segist bara taka því vel. „Í dag var ég eini Íslendingurinn sem byrjaði í varnarlínunni þegar leikurinn hófst. En þetta er bara skemmtilegt. Maður er talar orðið frönskuna alveg reiprennandi ég held ég vaði næst í að læra flæmskuna til þess að ná þessum strákum. En það er bara hollt og gott fyrir mann að spila með mismunandi mönnum,“ sagði Jón Ragnar Jónsson í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert