Stjarnan að missa fyrirliða sinn?

Michael Præst á ferðinni í leiknum í Poznan í gær.
Michael Præst á ferðinni í leiknum í Poznan í gær. Ljósmynd/Adam Jastrzebowsk

Stjarnan verður hugsanlega án fyrirliða síns Michael Præst það sem eftir lifir leiktíðar, meðal annars í leikjunum við Inter Mílanó, eftir að Daninn meiddist í hné í leiknum gegn Lech Poznan í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gær.

Að sögn Rúnars Páls Sigmundssonar þjálfara Stjörnunnar gæti Præst hafa slitið krossband í hnénu en hann mun gangast undir frekari skoðun hér heima um helgina. Sé raunin sú um að slitið krossband sé að ræða er um gríðarlegt áfall að ræða fyrir Stjörnuna enda Præst verið einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar og átt stóran þátt í því að Garðbæingar skuli vera í taplausir í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, sem og í Evrópukeppninni.

Rolf Toft fór einnig meiddur af velli í gær en Rúnar Páll segir að framherjinn sé ekki alvarlega meiddur.

„Hann hljóp á stöng á æfingu í vikunni og meiddist í mjöðm. Hann gat illa beitt sér í návígum í leiknum þannig að við kipptum honum út af,“ sagði Rúnar Páll.

Stjarnan mun hins vegar endurheimta Veigar Pál Gunnarsson úr meiðslum á næstunni en Veigar sagðist í samtali við mbl.is í hádeginu reikna með að geta spilað gegn Þór í Pepsideildinni á mánudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert