Kristján: Erfitt þegar hálf umferð er síðan við unnum í deildinni

Kristján Guðmundsson var vitanlega ekki sáttur með gang mála þegar rætt var við hann í leikslok eftir enn eitt tap Keflavíkur. Í þetta skiptið voru það Fylkismenn sem fóru með sigur af hólmi 1:0 suður með sjó í miklum baráttuleik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

„Okkur tókst ekki að skora. Það var helvíti vont. Það var kannski sérstakt að við fengum betri færi í fyrri hálfleik heldur en seinni, en mér fannst við spila seinni hálfleikinn betur,“ sagði Kristján sem fannst sitt lið ekki vera nægilega gott.

„Við vorum alls ekki nógu góðir. Margir leikmenn náðu ekki upp sínum eðlilega leik. Sennilega er það einhvers konar spenna. Menn eru að hugsa einhverja hluti sem skipta ekki máli,“ sagði Kristján. Spurður hvað vanti upp á hjá Keflavíkurliðinu sagði Kristján:

„Mér fannst við ekki vera alveg tilbúnir í fyrri hálfleik að framkvæma hluti sem við áttum að gera. Mér fannst við ekki vilja fá boltann, og alls ekki nógu öflugir að fara í boltann og vinna hann. Það vantaði þetta baráttueðli sem ætti að vera í liðinu þegar liðið er að spila næstsíðasta leikinn sinn á heimavelli og í þessari erfiðu stöðu,“ sagði Kristján en Keflavíkurliðið hefur ekki unnið leik í Pepsi-deildinni frá því að það spilaði fyrr í sumar við Fylki hinn 22. júní.

„Það er erfitt þegar það er hálf umferð síðan við unnum fótboltaleik í deildinni. Það er erfitt. Þegar hlutirnir heppnast ekki til að byrja með þá ferðu ósjálfrátt að hugsa um eitthvað sem þú ræður ekki við, í staðinn fyrir að halda áfram,“ sagði Kristján Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert