Gott að eiga markavél

Atli Viðar Björnsson
Atli Viðar Björnsson mbl.is/Árni Sæberg

Það er gott fyrir lið eiga markavél eins og Atli Viðar Björnsson er svo sannarlega en þessi mikli markaskorari sá til þess að gulltryggja FH-ingum 4:2 sigur gegn Fram í gær. Og um leið náðu FH-ingar þriggja stiga forskoti í toppsæti Pepsi-deildarinnar þar sem leik Stjörnumanna á móti Fjölnismönnum var frestað.

Atli Viðar kom inn á sem varamaður seint í síðari hálfleik og skoraði fjórða mark Hafnarfjarðarliðsins eftir að Framarar höfðu í tvígang náð að minnka mun heimamanna niður í eitt mark. Þetta var 98. mark Atla Viðars í efstu deild og það verður spennandi að sjá hvort honum tekst að ná að brjóta 100 marka múrinn í ár.

Vissulega voru aðstæður erfiðar en líklegast voru þær betri í Krikanum en á öðrum völlum sem spilað var á í gær. Það blés ekki byrlega fyrir Safamýrarliðið því eftir stundarfjórðung var staðan orðin 2:0 og þessar fyrstu mínútur voru beint framhald af spilamennsku Framara í leiknum á móti Fjölni á dögunum. FH-ingar höfðu tögl og hagldir í fyrri hálfleiknum en Bjarni Guðjónsson, þjálfari Framara, náði greinilega að kveikja í sínum mönnum í leikhléinu því þeir komu sterkir til leiks og náðu heldur betur að standa uppi í hárinu á toppliðinu, sem virkaði hálfþreytt á köflum en þetta var þriðji leikur liðsins á átta dögum. 

Nánar er fjallað um viðureign FH og Fram í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun eins og aðra leiki 20. umferðar sem fram fóru í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert