Breiðablik selur Árna til Lilleström

Árni Vilhjálmsson í leik með Breiðabliki.
Árni Vilhjálmsson í leik með Breiðabliki. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Breiðablik hefur selt knattspyrnumanninn Árna Vilhjálmsson til norska úrvalsdeildarfélagsins Lilleström en Kópavogsfélagið sendi fyrir stundu frá sér tilkynningu þess efnis.

Þar kemur fram að Breiðablk og Lilleström hafi náð samkomulagi um kaupverðið. Hann muni nú sjálfur ræða við norska félagið og gangast undir læknisskoðun, og ganga til liðs við það á næstu dögum ef ekkert óvænt kemur upp.

Árni er tvítugur að aldri og var í hópi markahæstu leikmanna úrvalsdeildarinnar í fyrra með 10 mörk í 20 leikjum fyrir Breiðablik. Hann hefur samtals gert 23 mörk í 61 leik fyrir félagið í efstu deild og spilað 5 leiki með 21-árs landsliði Íslands, og 20 leiki með yngri landsliðunum.

Rúnar Kristinsson var ráðinn þjálfari Lilleström í vetur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson aðstoðarþjálfari. Þá fékk félagið Finn Orra Margeirsson, samherja Árna hjá Breiðabliki og fyrirliða Kópavogsliðsins, til lið sig fyrir skömmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert