Samkeppni en samt gleði og hamingja

Þorgrímur Þráinsson á æfingu landsliðsins í Astana Arena í gær.
Þorgrímur Þráinsson á æfingu landsliðsins í Astana Arena í gær. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Þorgrímur Þráinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, segir að það séu mikil forréttindi að fá að fylgja íslenska landsliðinu í verkefni eins og í Kasakstan en hann er þar með liðinu sem landsliðsnefndarmaður og aðstoðar strákana og þjálfarana á hliðarlínunni í æfingum og á leikjum.

Þorgrímur, sem lék jafnan sem hægri bakvörður með Val og landsliði Íslands, var bjartsýnn fyrir leikinn í Astana í dag þegar mbl.is spjallaði við hann á lokaæfingu liðsins í höllinni glæsilegu Astana Arena, í gær.

„Já, ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessum leik. Ekki síst vegna þess að gervigrasið hefur alls ekkert farið í taugarnar á mönnum. Það er frábært að vera hérna á æfingum innanhúss í 15 stiga hita og það sýnir metnaðinn og áhugann í hópnum að strax á fyrsta degi, eftir langt ferðalag og mikinn tímamismun, þar sem strákarnir höfðu frelsi um hvort þeir æfðu eða ekki, þá voru allir með á fyrstu æfingunni. Það var enginn fyrir utan, enginn sem valdi að hvíla sig eða jafna sig betur eftir ferðina," sagði Þorgrímur sem lék 17 landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1981 til 1990.

Dásamlegt að fylgjast með þeim

Hann sagði að fagmennskan í hópnum væri til fyrirmyndar. „Hér eru menn hundrað prósent einbeittir eins og alltaf. Þeir leggja sig mikið fram og það er mikil samkeppni um stöður í liðinu, en svo er tóm gleði og hamingja inn á milli. Ég myndi segja að einbeitingin væri algjör, þetta eru svo miklir fagmenn fram í fingurgóma að það er dásamlegt að fá að fylgjast með þeim."

Þorgrímur sagði að ljóst væri að erfitt verkefni biði landsliðsins í í dag. „Já, þetta verður gríðarlega erfiður leikur, það gera allir sér grein fyrir því. Kasakar eru mjög varnarsinnaðir og öflugir og allt það og menn eru búnir að fara í gegnum alla hluti hvað þá varðar. Dagsformið skiptir gríðarlega miklu máli í þessum leik og hugrekkið til að taka af skarið."

En hann kvaðst jafnframt viss um að þrjú stig myndu skila sér í hús. „Algjörlega. Ég hef fulla trú, og við allir á því að liðið sé að fara til Frakklands sumarið 2016. Auðvitað þarf að taka einn leik í einu en markmiðið er gjörsamlega klárt. Þeir munu standa sig.

Þessir strákar eru sem einn maður. Það er svo oft í landsliðshópum, í alls kyns greinum, að ekki eru allir á sömu línu, en hér er samstaðan algjör. Svo er fagmennskan mikil í kringum þjálfunina og í kringum liðið. Allt starfsliðið er á fullu, sjúkraþjálfarar og nuddarar eru önnum kafnir til miðnættis alla daga og leikmenn eru duglegir að nýta sér aðstöðuna, fara í sána, sund, heitan pott og nudd."

Þegar Þorgrímur var í landsliði Íslands á níunda áratug síðustu aldar var aðstaðan aðeins öðruvísi en í dag. Spurður hvort hefði ekki verið munur að vera á toppi síns ferils í dag og æfa og spila við þær aðstæður sem nú eru í boði, svaraði gamli bakvörðurinn sem ólst upp á malarvellinum í Ólafsvík: „Jú, guð almáttugur, þetta er frábært." Svo komst hann ekki lengra, tími fjölmiðlamanna á æfingunni var liðinn og kurteisir en ákveðnir fulltrúar kasakska knattspyrnusambandsins gáfu til kynna að þessu viðtali yrði að ljúka hvað úr hverju!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert