Búast má við skipulögðum Eistum

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu segir vináttulandsleikinn gegn Eistum á morgun verða svipaðan og þann gegn Kasastan á laugardag í undankeppni Evrópumótsins. Lið Eista sé varnarsinnað og erfitt að brjóta á bak aftur en það sé einmitt það sem íslenska liðið þurfi að æfa sig í að gera.

„Þetta verður svipaður leikur og úti í Kasakstan. Þessi lið hafa svipaðan leikstíl. Eistarnir eru mjög varnarsinnaðir, fljótir til baka og það er erfitt að brjóta þá niður. Ef við horfum á síðustu tíu leiki  Eista þá hefur aðeins verið skorað eitt mark í sjö þeirra. Það er erfitt að brjóta ísinn gegn þeim. Allt sem við æfðum fyrir leikinn gegn Kasakstan gildir í þessum leik,“ sagði  Heimir Hallgrímsson við Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúa KSÍ en leikurinn á morgun hefst kl. 16.00 á íslenskum tíma.

„Þetta er mjög þétt og skipulagt lið með sænskan þjálfara. Það hefur í sænskt handbragð og við þekkjum það ágætlega,“ sagði Heimir en Svíinn Lars Lagerbäck þjálfari einnig íslenska landsliðið.

„Það er ekki mikið skorað í leikjunum þeirra. Það má ekkert frekar búast við flugeldasýningu í þessum leik, heldur en úti í Kasakstan,“ sagði Heimir sem segir að hann ásamt Lars, vilji æfa íslensku leikmennina í að brjóta upp varnarsinnuð og skipulögð lið í leiknum.

„Við ákváðum að taka inn Rúnar Má (Sigurjónsson) sem stóð sig vel úti í Orlando hjá okkur í janúar og reynslukarlinn Ólaf Inga (Skúlason) til að koma inn í hópinn. Tveir miðjumenn, af því að við vorum svolítið þunnir í þeirri leikstöðu,“ sagði Heimir.

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Eiður Smári Guðjohnsen hafa báðir yfirgefið hópinn en eins og kunnugt er varð Aron Einar faðir á meðan hann var í Kasakstan og Eiður og kona hans eiga von á barni.

Gylfi Þór Sigurðsson var fyrir smá hnjaski í leiknum gegn Kasakstan og hélt einnig heim á lið til Swansea.

„Gylfi var óleikhæfur og við töldum það í Þýskalandi (á heimleið frá Kasakstan) að það væri best að hann færi í meðferð í Swansea svo hann geti jafnvel spilað leik um helgina. Það var því engin ástæða fyrir hann að þvælast með okkur til Eistlands af því að hann gat ekki spilað,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert