„Verðskuldað hjá okkur“

Ólafur Íshólm Ólafsson í leik með Fylki.
Ólafur Íshólm Ólafsson í leik með Fylki. mbl.is/Golli

Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður Fylkis, var að vonum kátur með fyrsta sigur Fylkismanna í sumar þegar þeir lögðu Keflvíkinga í kvöld í Borgunarbikarnum. Fylkir vann Keflavík 2:1 og er því komið áfram í 16-liða úrslitin.

„Þetta var góður sigur hjá okkur og gott að sá fyrsti leit dagsins í ljós. Við fáum á okkur eitthvert ódýrt víti hérna undir lok leiks ég eiginlega skildi þetta ekki en dómarinn sagði að okkar maður hefði augljóslega brotið af sér,“ sagði Ólafur við mbl.is.

„Ég hefði auðvitað viljað halda hreinu. Það lá svolítið á okkur í seinni hálfleik gegn vindi en ég myndi segja að þetta hefði verið verðskuldað hjá okkur,“ sagði hann að lokum.

Ólafur byrjaði fyrsta leikinn hjá Fylki en missti sæti sitt til Lewis Ward sem kom frá Englandi. Nú hefur hann spilað síðustu tvo leiki hjá Fylki en liðið gerði jafntefli við ÍA í síðasta leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert