„Svolítið sturlað sumar“

Garðar Gunnlaugsson fagnar einu af fjórtán mörkum sínum í Pepsi-deildinni …
Garðar Gunnlaugsson fagnar einu af fjórtán mörkum sínum í Pepsi-deildinni í sumar. mbl.is/Ófeigur

Garðar Gunnlaugsson úr ÍA fékk í dag afhentan gullskóinn sem markahæsti leikmaður Íslandsmóts karla í knattspyrnu 2016. Garðar skoraði 14 mörk í 22 leikjum í sumar og varð einu marki á undan Kristni Frey Sigurðssyni hjá Val. Hrvoje Tokic tryggði sér bronsskóinn með marki fyrir Víking Ólafsvík í dag, sínu níunda marki í sumar.

Skagamenn luku mótinu á 1:0-tapi gegn Val í dag og höfnuðu í 8. sæti Pepsi-deildarinnar, en með 31 stig og voru lengi vel í baráttu um Evrópusæti.

„Þetta er búið að vera svolítið sturlað sumar. Það hafa allir verið að vinna alla, fyrir utan FH sem sigldi þessu bara heim. Okkar fyrsta markmið var að halda okkur uppi, og annað markmiðið var að gera betur en í fyrra. Við náðum báðum markmiðum og förum gríðarlega sáttir inn í fríið,“ sagði Garðar, sem sagði þó blendnar tilfinningar fylgja því að taka við gullskó eftir tapleik eins og í dag:

„Þetta er svona súrsætt. Við vildum auðvitað klára tímabilið með sigri eins og í fyrra. Það gerir veturinn auðveldari og skemmtilegri. En úr því sem komið var er náttúrulega mjög ljúft að hafa tekið gullskóinn,“ sagði Garðar, sem skoraði mörg stórkostleg mörk í sumar:

Landsliðssætið gaf mikið „búst“

„Heilt yfir er þetta mitt besta tímabil. Ég átti líka gott tímabil í fyrra, en meiddist og var frá í nokkra leiki á miðju sumri. Ég er annars búinn að vera nokkuð heill síðustu ár, eftir mikla meiðslabaráttu árin þar á undan, og ég held að það sé ástæðan fyrir þessum stíganda hjá mér,“ sagði Garðar, sem er orðinn 33 ára en á toppi ferilsins:

„Ég er ekkert að treysta á hraða minn sem leikmaður, og ekkert að fara að breytast mikið sem leikmaður á næstu árum. Reynslan eykst bara og ég reyni að nýta mér það,“ sagði Garðar, sem segir það hafa gert mikið fyrir sig að fá sæti í íslenska landsliðinu síðasta vetur, og þreyta frumraun sína með því:

„Það var klárlega mikið „búst“ fyrir sjálfstraustið. Þetta var mikið búst fyrir mig og líka fyrir klúbbinn. Það sást að maður þarf ekki að vera hjá erlendu liði eða einhverju af toppliðunum hér heima til að fá sénsinn. Það er líka mjög gaman að fá að spila sinn fyrsta landsleik, orðinn 32 ára gamall.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert