Svekkjandi jafntefli við Georgíu

Arnór Gauti Ragnarsson (lengst til vinstri) átti virkilega góðan leik …
Arnór Gauti Ragnarsson (lengst til vinstri) átti virkilega góðan leik í dag. Eggert Jóhannesson

Íslenska U21 árs landslið karla í knattspyrnu gerði 4:4 jafntefli við Georgíu í seinni vináttuleik liðanna í Georgíu í dag. Georgía skoraði tvö mörk í lokin, eftir að Ísland hafði komist í 4:2. 

Ísland skoraði fyrsta mark leiksins eftir 15 mínútur. Arnór Gauti Ragnarsson skoraði þá með föstum skalla eftir fyrirgjöf frá Viktori Karli Einarssyni. Luka Zarandia jafnaði hins vegar aðeins tveim mínútum síðar með góðu skoti utan teigs, sem Jökull Blængsson í markinu átti ekki möguleika í. 

Fjórum mínútum síðar var Arnór Gauti hins vegar aftur á ferðinni er hann skoraði eftir glæsilega sendingu frá Jóni Degi Þorsteinssyni. Eftir hálftíma leik jafnaði Irakli Bidzinashvili í 2:2 og þannig var staðan í leikhléi. 

Ísland komst í 4:2 í seinni hálfleik. Fyrst skoraði Alfons Sampsted eftir sendingu frá Arnóri Gauta, áður en Axel Andrésson skallaði fyrirgjöf Alberts Guðmundssonar í netið. Georgíumönnum tókst hins vegar að skora tvö mörk í lokin, bæði eftir mistök Jökuls Blængssonar í markinu. Fyrst misreiknaði hann langan bolta fram og átti framherji Georgíu ekki í vandræðum með að skora í autt markið. Jöfnunarmarkið var svo skot af um 30 metra færi sem fór beint á Jökul, sem átti að gera betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert