„Það er bara áfram gakk“

Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson. mbl.is/Eva Björk

„Við vildum eftir þessa fyrstu tvo leiki fá grunnatriðin í gang, varnarfærslurnar og talandann. Það tókst. Í fyrri hálfleik, fyrir utan kannski þegar Chopart fær færið þá þeir ekkert færi,“ sagði Garðar B. Gunnlaugsson, sem skoraði mark Skagamanna í 2:1 tapi gegn KR-ingum í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Það er bara óheppni þetta sjálfsmark. Við náum góðum skyndisóknum og ég er bara klaufi að skora ekki úr einni þeirra. Í seinni hálfleik fáum við á okkur annað mark og þá riðlast skipulagið í einhvern tíma þangað til við náum inn þessu marki. Þá setjum við smá þunga í þetta en það vantaði kannski smá auka kraft til að klára þetta.“

Skagamenn hafa tapað þremur fyrstu leikjum mótsins en Garðar hefur fulla trú á liðinu. „Það er nóg eftir af þessu. Við vorum með fjögur stig eftir sjö leiki í fyrra. Við erum ekkert farnir að örvænta. Það er bara áfram gakk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert