„Við áttum góðan dag"

Cloe Lacasse í leik ÍBV og Þórs/KA í fyrra.
Cloe Lacasse í leik ÍBV og Þórs/KA í fyrra. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kanadíski framherjinn Cloé Lacasse skoraði fernu fyrir ÍBV gegn Fylki þegar liðin mættust í Árbænum í áttundu umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. ÍBV vann leikinn örugglega 5:0. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði eitt mark fyrir Eyjakonur.

„Við vorum spenntar fyrir leiknum þar sem margar úr liðinu voru frá vegna landsliðsverkefna, allavega Ingibjörg og Sísí (Sigríður Lára Garðarsdóttir). Við vorum ánægðar með að vera loksins allar saman aftur. Við vissum að Fylkir væri með ungt lið en við förum samt sem áður með sama hugarfar inn í alla leikina okkar. Leikurinn hefst á núlli svo við vanmetum engan. Við áttum góðan dag.“

ÍBV er í fjórða sæti eftir átta umferðir jafnt Stjörnunni með 16 stig. Valskonur koma á hæla þeirra með 15 stig.

Jón Aðalsteinn Kristjánsson þjálfari Fylkis var nokkuð ánægður með leik síns liðs. Fylkir lék í fyrsta skipti á tímabilinu leikkerfið 5-3-2.  

„Við getum tekið eitthvað jákvætt út úr leiknum. Við náðum að halda boltanum betur en við höfum verið að gera í sumar. Varnarlega lékum við ekki nógu vel en samt finnst mér þetta vera hálfger „júmbó“ mörk sem við fengum á okkur þegar einstaklingar gerðu mistök. Ég ætlaðist ekki til þess að liðið léki fullkomlega þar sem þetta var í fyrsta skipti í sumar sem við prófuðum nýja leikkerfið.“

Fylkir tefldi fram ungu liði, en systurnar Thelma Lóa og Ída Marín Hermannsdætur komu inná þegar liðið gerði tvöfalda skiptingu. Systurnar voru frískar og héldu heimakonum á ágætis hraða. Hvað fannst Jóni um þeirra innkomu?

„Mér finnst þær frábærar og þetta er það sem var vitað og það sem við munum nota áfram. Þær munu fá miklu fleiri tækifæri og jafnvel enn yngri, ég er með eina yngri sem er mjög öflug," sagði Jón í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert