Titillinn er runninn okkur úr greipum

Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Breiðabliks.

„Þetta er eins ömurlegt og það gerist. Það virðist allt falla með Þór/KA þessa dagana og þessi leikur var gott dæmi þess að mínu mati. Mér fannst við sterkari aðilinn í leiknum, en þær skoruðu þetta mark í lokin og því fór sem fór,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir gríðarlega svekkjandi 2:1-tap liðsins gegn Þór/KA í toppslag Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

Breiðablik er nú sjö stigum á eftir Þór/KA og Fanndís er orðin úrkula vonar um að Blikar nái að snúa taflinu við og komast á topp deildarinnar í seinni umferðinni.

„Þetta var lykilleikur fyrir okkur upp á framhaldið. Við þurftum að vinna þennan leik til þess að halda lífi í titilbaráttunni. Það gekk því miður ekki eftir og ég held að Þór/KA sé komið með of mikið forskot á okkur. Ég held að við náum ekki að komast upp fyrir þær í seinni umferðinni, einkum og sér í lagi ef þær halda áfram að vera svona heppnar,“ sagði Fanndís um framhaldið í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert