Valur áfram og fer til Slóveníu

Valsmenn eru komnir í 2. umferð Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu og mæta þar Domzale frá Slóveníu næstu tvo fimmtudaga, eftir verðskuldaðan sigur á Ventspils frá Lettlandi, 1:0, á Valsvellinum í gærkvöld þar sem Sigurður Egill Lárusson skoraði sigurmarkið.

Fyrri leikurinn í Lettlandi endaði 0:0 og Valur vann því 1:0 samanlagt. Fyrri leikurinn við Domzale verður á Valsvellinum eftir viku, 13. júlí.

Valsmenn tóku völdin á vellinum strax í byrjun, spiluðu oft stórgóðan fótbolta og gerðu harða hríð að marki Ventspils á löngum köflum í fyrri hálfleiknum.

Þeir fengu góð færi til að ná forystunni, strax á 5. mínútu varði Andrejs Pavlovs vel frá Sigurði Agli Lárussyni og Valsliðið fékk hverja hornspyrnuna á fætur annarri, alls átta í fyrri hálfleiknum.

Kristinn Ingi Halldórsson fékk dauðafæri á 32. mínútu þegar hann skaut hátt yfir markið eftir fallega sókn og fyrirgjöf Sigurðar Egils. Fjórum mínútum síðar skallaði Guðjón Pétur Lýðsson í stöngina á marki Ventspils eftir fyrirgjöf Bjarna Ólafs Eiríkssonar.

Enn voru Valsmenn nærri því að skora á 39. mínútu þegar Pavlovs varði vel með fótunum eftir skot Guðjóns Péturs af stuttu færi. Staðan 0:0 í hálfleik.

Eftir daufan síðari hálfleik þar sem ekkert var af færum en Valsmenn reyndu áfram að sækja dró til tíðinda á 71. mínútu. Kristinn Ingi slapp inn fyrir vörnina, Pavlovs markvörður var á undan honum og sló boltann en Sigurður Egill fékk hann rétt innan vítateigs og skoraði með föstu skoti, 1:0.

Nú var skammt stórra högga á milli. Eftir nokkra pressu Lettanna í kjölfar marksins fékk Kristinn Ingi langa sendingu fram á 77. mínútu og slapp fram hjá Pavlovs markverði utan vítateigs. Pavlovs keyrði hann niður og fékk umsvifalaust rauða spjaldið.

Valsmenn höfðu leikinn að mestu leyti í hendi sér eftir það og Lettarnir náðu ekki að ógna þeim að ráði á lokamínútunum. Sveinn Aron Guðjohnsen fékk dauðafæri í uppbótartímanum þegar hann slapp einn upp að marki Ventspils en Maksims Uvarenko varamarkvörður varði frá honum. Sveinn Aron komst aftur einn gegn markverði í blálokin en þá bjargaði varnarmaður Ventspils með frábærum tilþrifum.

Valur 1:0 Ventspils opna loka
90. mín. Uppbótartími 4 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert