Þróttur jafnaði Fylki á stigum

Þróttur fær heimsókn frá Gróttu í kvöld.
Þróttur fær heimsókn frá Gróttu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þróttur R. tók á móti Gróttu í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld en bæði lið höfðu tapað síðasta leik sínum. Þróttarar unnu að lokum sanngjarnan 2:0 sigur í fjörugum leik.

Þróttarar komust yfir strax á 16. mínútu og var þar á ferðinni Viktor Jónsson með sitt áttunda mark í sumar. Víðir Þorvarðarson átti fína fyrirgjöf frá vinstri kantinum sem Viktor skallaði í slánna og inn.

Aðeins tveimur mínútum síðar fengu Gróttumenn algjört dauðafæri þegar Viktor Smári Segatta lagði boltann fyrir Enok Eiðsson sem, í stað þess að skjóta á markið af örstuttu færi, tók snertingu og missti boltann frá sér.

Gestirnir áttu eftir að fara illa með annað færi áður en hálfleikurinn var úti en það gerði Sigurvin Reynisson þegar hann átti laflaust skot af stuttu færi sem fór beint í fangið á Arnari Darra Péturssyni í markinu.

Vilhjálmur Pálmason tvöfaldaði forystu Þróttara á 65. mínútu með glæsilegu einstaklingsmarki. Hann fékk þá boltann frá Hrein Inga Örnólfssyni á hægri kantinum, stakk sér á milli tveggja varnarmanna, framhjá þeim þriðja og skoraði svo með föstu skoti í í nærhornið.

Þegar um tíu mínútur voru til leiksloka þyngdist róðurinn enn frekar hjá Gróttumönnum þegar Arnar Þór Helgason fékk beint rautt spjald fyrir að brjóta á Sveinbirni Jónassyni sem var sloppinn í gegn.

Með sigrinum fara Þróttarar í 30 stig og upp að hlið Fylkis í öðru sætinu sem tapaði gegn HK í kvöld, mikil spenna í toppbaráttunni. Grótta er áfram í 11. sætinu og fallsæti með átta stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Þróttur R. 2:0 Grótta opna loka
90. mín. Sveinbjörn Jónasson (Þróttur R.) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert