Það mætti halda að við værum einum fleiri

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals í leiknum í kvöld.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ekki að segja að þetta hafi ekki verið rautt spjald, en það var ekki samræmi í því sem dómarinn var að gera,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals eftir 1:0 tap gegn Stjörnunni á útivelli í dag í Bestu deild karla í knattspyrnu.

„Mér fannst við sterkari aðilinn fram að rauða spjaldinu og smá eftir rauða spjaldið en svo ná þeir að pota inn marki rétt undir lok fyrrhálfleiks.

Auðvitað breytist leikurinn við rauða spjaldið en mér fannst frammistaðan í seinni hálfleik gríðarlega öflug. Þeir fengu eitt eða tvö skot á markið og við fengum ég veit ekki hvað margar hornspyrnur og skot á markið. Það mætti halda að við værum einum fleiri.

 Við vorum passívir í seinni hálfleik því við vildum ekki lenda 2:0 undir og gerðum það vel. Þeir fóru ekki mikið yfir miðju, bara nokkrum sinnum undir restina en við gerðum vel trekk í trekk.

Við fengum helling af hornspyrnum og vorum að komast í stöður þar sem við hefðum geta skotið og hefðum átt að nýta þau færi sem við fengum.

Það er svekkjandi að fá ekkert út úr þessu, frammistaðan var betri en það þó að við vorum einum færri,“ sagði Arnar í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Valsarar spiluðu manni færri frá 38. mínútu þegar að Bjarni Mark Antonsson fékk hans annað gula spjald og þar með rautt.

„Það er ekki gáfulegt að renna sér í mann og bjóða hættunni heim en mér fannst línan hjá dómaranum ekki góð,“ sagði Arnar.

Frederik Schram fékk gult spjald stuttu eftir markið eftir að hann æddi upp að línudómaranum.

„Hann segir að boltinn hafi farið út af. Ég á eftir að sjá þetta aftur, það er ekki möguleiki fyrir okkur að sjá það og erfitt fyrir línudómarann líka en svo dæmdi hann boltann út af á okkur hinum megin í svipaðri stöðu.

Ég vona innilega að hann hafi verið inni því það er ennþá meira svekkjandi að tapa þegar sigurmarkið er ólöglegt.“

Valur hefur ekki farið eins vel af stað og þeim var spáð en í fyrstu þremur leikjunum hafa þeir unnið einn gegn ÍA, 2:0, svo 0:0 jafntefli við Fylki og töpuðu í dag. 

„Í Fylkisleiknum vorum við með boltann 60-70% og ég veit ekki hversu margar snertingar við fengum inni í þeirra vítateig á meðan að þeir eru með mjög fáar í okkar. Það er mjög svekkjandi að geta ekki nýtt þá yfirburði sem við höfðum og ná ekki í eitt stig í kvöld.

Það erfitt þegar þú lendir einum færri í fyrri hálfleik, kringum 35.-40. mínútu. Það er drullu erfitt og Stjarnan er líka með menn sem eru góðir fótbolta. Mér fannst menn leggja sig gríðarlega mikið fram og það er mikið hjarta í þessu. Við erum ennþá inni í þessu,“ sagði Arnar en Valur er í fjórða sæti í deildinni með fjögur stig eftir þrjá leiki og öll lið nema Stjarnan eiga leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert