Hræddir um að slasa stjörnur

Heiðar Helguson skoraði mark Íslands gegn Englandi árið 2004.
Heiðar Helguson skoraði mark Íslands gegn Englandi árið 2004. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þó að Englendingar séu á meðal okkar næstu nágranna og tengsl þjóðanna séu mikil, bæði í fótboltanum og á öðrum sviðum, hafa Ísland og England aðeins mæst tvisvar í A-landsleik karla.

Fyrri viðureignin fór fram á Laugardalsvellinum 2. júní árið 1982 og þar skildu þjóðirnar jafnar, 1:1. Englendingar tefldu fram tveimur liðum þennan dag í lokaundirbúningi sínum fyrir heimsmeistaramótið á Spáni og voru með sterkara liðið í Finnlandi á sama tíma. Á Laugardalsvelli, frammi fyrir 11 þúsund áhorfendum, léku þeir sem voru að berjast um sæti í enska liðinu, allt saman þekktir kappar úr ensku deildinni og sumir með fjölmarga landsleiki að baki.

Íslenska liðið, undir stjórn Jóhannesar Atlasonar, var að búa sig undir fyrsta leik sinn í undankeppni EM 1984, og þótti spila mjög vel og hefði verðskuldað sigur. Arnór Guðjohnsen var langbesti leikmaður vallarins og hann kom Íslandi yfir á 23. mínútu eftir frábæran undirbúning Atla Eðvaldssonar og Lárusar Guðmundssonar. Paul Goddard jafnaði fyrir England á 69. mínútu eftir að Glenn Hoddle hafði náð boltanum og brunað upp völlinn.

Eiður fyrirliði í leiknum

Seinni leikurinn fór fram á City of Manchester-leikvanginum, sem nú heitir Etihad-leikvangurinn, 5. júní 2004 og var liður í þriggja liða alþjóðlegu móti þar sem Japanir tóku einnig þátt. Frammi fyrir 48 þúsund áhorfendum unnu Englendingar stórsigur, 6:1, en þeir voru á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir EM í Portúgal.

Eiður Smári Guðjohnsen, sem þá lék með Chelsea, var fyrirliði Íslands í leiknum og er sá eini í íslenska EM-hópnum í dag sem tók þátt í leiknum. Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson voru þjálfarar liðsins sem hafði náð langt í undankeppni EM haustið áður og spilað hreinan úrslitaleik við Þýskaland um sigur í sínum riðli og EM-sæti.

Rooney skoraði tvö mörk

Wayne Rooney, núverandi fyrir Englands, skoraði tvö mörk í leiknum, Darius Vassell gerði tvö og þeir Frank Lampard og Wayne Bridge eitt hvor. Heiðar Helguson skoraði mark Íslands, minnkaði muninn í 3:1 undir lok fyrri hálfleiks með skalla upp úr hornspyrnu en Hermann Hreiðarsson, Pétur Marteinsson og Ívar Ingimarsson komu boltanum allir nær markinu áður en Heiðar batt endahnútinn.

Enskir fjölmiðlar höfðu gagnrýnt íslenska liðið fyrir harðan leik gegn Japan, í 2:3 ósigri nokkrum dögum áður, og óttuðust að íslensku leikmennirnir myndu slasa einhverja af ensku lykilmönnunum rétt fyrir EM. Þetta virtist hafa áhrif á lið Íslands sem var ólíkt sjálfu sér og baráttulítið í leiknum.

Greinin er úr íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem ítarlega er fjallað um viðureign Íslands og Englands og EM í fótbolta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin