Dalglish: Downing betri en ég hélt

Stewart Downing í leik með Liverpool gegn Sunderland.
Stewart Downing í leik með Liverpool gegn Sunderland. Reuters

Kantmaðurinn Stewart Downing hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með Liverpool, sem keypti hann af Aston Villa fyrir 20 milljónir punda í sumar. Knattspyrnustjórinn Kenny Dalglish kveðst þó afar ánægður með leikmanninn.

Downing skoraði loksins sitt fyrsta mark fyrir Liverpool í bikarleik gegn C-deildarliði Oldham fyrr í þessum mánuði, og þrátt fyrir stöðu sína á kantinum og margar fyrirgjafir hefur hann enn ekki lagt upp eitt einasta mark fyrir liðið, í 24 leikjum. Dalglish hefur sex sinnum skipt honum af velli.

„Stewart er frábær fótboltamaður. Það var stórt skref fyrir hann að koma hingað - með fullri virðingu fyrir öðrum liðum sem hann hefur spilað með - því nú er hann kominn í virkilega stórt félag. Hann þarf tíma til að laga sig að aðstæðum en okkar álit á honum hefur ekkert breyst. Hann er betri leikmaður en ég hélt að hann væri - bæði betri með boltann og fljótari en ég hafði áttað mig á," sagði Dalglish við Daily Mail í dag.

Liverpool sækir Bolton heim í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni klukkan 17.30 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert