Staðfest að Giggs stýri United

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. AFP

Ryan Giggs mun stjórna Manchester United í þeim fjórum leikjum sem liðið á eftir á þessu keppnistímabili í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en félagið staðfesti það rétt í þessu.

Giggs hefur verið í þjálfarateymi United í vetur, ásamt því að spila með liðinu. David Moyes var sagt upp störfum í morgun eins og áður hefur komið fram og bæði aðstoðarmaður hans og þjálfari aðalliðsins eru líka búnir að yfirgefa Old Trafford.

Í tilkynningu frá United segir að Giggs muni sjá um aðallið félagsins þar til búið verði að ráða knattspyrnustjóra til frambúðar.

Giggs, sem er fertugur, hefur leikið allan sinn feril með Manchester United og hefur unnið þrettán titla með félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka