Sigraðist á krabba og spilar í dag

Jonás Gutiérrez í leik með Newcastle.
Jonás Gutiérrez í leik með Newcastle. AFP

Argentínski knattspyrnumaðurinn Jonás Gutiérrez klæðist á ný keppnisbúningi enska félagsins Newcastle í dag eftir baráttu við krabbamein í hálft annað ár og spilar með varaliði félagsins.

Gutiérrez, sem er 31 árs og hefur leikið með Newcastle frá 2008, upplýsti í september 2013 að hann væri í meðferð vegna krabbameins í eista, en það uppgötvaðist eftir leik með Newcastle gegn Arsenal þá um vorið. Hann kenndi sér meins á ný síðasta vor og þurfti að fara í geislameðferð í annað sinn ig var lagður inn á sjúkrahús í haust. Þaðan var Gutiérrez loks útskrifaður í byrjun nóvember og hann er nú að komast af stað í fótboltanum á nýjan leik.

Jonás Gutiérrez er vinsæll meðal stuðningsmanna Newcastle en hann hefur leikið 177 leiki með félaginu í úrvalsdeildinni og þá á hann að baki 22 landsleiki fyrir Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert