Eiður skoraði í jafnteflisleik

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði mark Bolton þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Reading í ensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Eiður byrjaði á varamannabekknum en kom inná sem varamaður rétt fyrir hálfleik. Það var þriðja og síðasta skipting Bolton í leiknum en allar komu þær til vegna meiðsla. Eiður skoraði svo markið sitt á 60. mínútu eftir undirbúning Adam Le Fondre en Reading jafnaði metin í uppbótartíma.

Eftir leikinn er Bolton með 41 stig í 17. sæti deildarinnar, 20 stigum frá næsta umspilssæti og 10 stigum frá fallsæti.

Það var Íslendingaslagur í Rotherham þar sem Kári Árnason lék í vörn heimamanna gegn Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff. Aron og félagar fögnuðu 3:1-sigri. Cardiff er með 44 stig en Rotherham er með 37 stig, sex stigum frá fallsæti.

Jóhann Berg Guðmundsson gat ekki leikið með Charlton vegna meiðsla en liðið vann Nottingham Forest 2:1. Charlton er því með 45 stig í 12. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert