Van Gaal verður að líta í eigin barm

Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United.
Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Hollendingurinn Ruud Gullit hefur litla samúð með landa sínum, Louis van Gaal. Þeim síðarnefnda var sem kunnugt er sagt upp störfum hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United á mánudag, tveimur dögum eftir að liðið varð bikarmeistari undir hans stjórn.

Gullit, sem varð tvívegis Evrópumeistari með AC Milan og var síðar knattspyrnustjóri Chelsea og Newcastle, segir að Van Gaal verði að líta í eigin barm:

„Margt sem gerðist er honum að kenna. Það er ekki hægt að vera í stöðugu stríði við fréttamenn. Þeir hafa sitt álit og maður verður að virða það. Þessi endalausi núningur hjálpaði honum ekki,“ sagði Gullit.

„Knattspyrnuheimurinn getur verið harður. Ef þú ferð til stórliðs og nærð ekki árangri þá ertu í vondum málum,“ bætti Gullit við en Van Gaal tók við United eftir að Holland hafnaði í þriðja sæti á HM í Brasilíu undir hans stjórn fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert