„Velkominn aftur Vardy“

Jamie Vardy skorar eitt af þremur mörkum sínum.
Jamie Vardy skorar eitt af þremur mörkum sínum. AFP

Leicester sýndi gamalkunna takta þegar liðið vann öruggan sigur á Manchester City, 4:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Framherjinn Jamie Vardy, sem fór á kostum á síðasta tímabili þegar Leicester varð enskur meistari, skoraði í fyrsta sinn síðan í september. Hann minnti heldur betur á sig og skoraði þrennu og er nú markahæsti maður Leicester í efstu deild með 34 mörk.

„Þetta var hið sanna Leicester-lið. Við höfum spilað mjög illa í síðustu leikjum, en í dag vorum við ógnarsterkir. Við spiluðum skynsamlega og hægðum vel á leiknum,“ sagði knattspyrnustjórinn Claudio Ranieri.

Hann var skiljanlega ánægður með Vardy.

„Ég er mjög glaður fyrir hans hönd. Þegar leikurinn var búinn sagði ég við hann: Velkominn aftur,“ sagði Ranieri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert